Sigurjón Ólafsson
1908-1982
-
-
Sigurjón Ólafsson
Blómgun
Verkið er staðsett við Menntaskólann við Sund, á horni Gnoðarvogs og Skeiðarvogs.
-
Sigurjón Ólafsson
Borgarskáldið - Tómas Guðmundsson
Verkið er staðsett í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu.
-
Sigurjón Ólafsson
Gríma
Verkið er staðsett við Borgarleikhúsið.
-
Sigurjón Ólafsson
Gunnar Thoroddsen
-
Sigurjón Ólafsson
Héðinn Valdimarsson
Við suðvesturhorn leikvallar er snýr að Hringbraut Um svipað leyti og Sigurjón vann að minnismerki sr. Friðriks Friðrikssonar við Lækjargötu tók hann að sér að gera standmynd af Héðni Valdimarssyni (1892–1948), alþingismanni og formanni Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Standmyndin var gerð fyrir Byggingarfélag alþýðu, en á sínum tíma var Héðinn einn helsti forystumaður byggingarsamtaka verkamanna. Haustið 1953 var afsteypa af styttunni, sem gerð var hjá Lauritz Rasmussen í Kaupmannahöfn, komin til landsins og þá sótti Byggingarfélag alþýðu um að fá að setja hana upp í nánd við verkamannabústaðina við Hringbraut. Styttan var sett upp í október 1955 að Sigurjóni fjarverandi og skýrir það ef til vill þann galla sem er á uppsetningu hennar. Eins og Björn Th. Björnsson segir í listasögu sinni var það ásetningur Sigurjóns að fanga ekki aðeins „líking“ Héðins, heldur „engu síður hið gustmikla fas“ hins öfluga stjórnmálaskörungs og verkalýðsfrömuðar. Um leið vill hann myndgera hugmyndina um leiðtoga sem ávallt er fastur fyrir. Því lætur listamaðurinn persónuna renna saman við stallinn svo úr verður eins konar „mannbjarg“. Til að þétta enn yfirbragð styttunnar beitir Sigurjón sama bragði og danski listamaðurinn J.F. Willumsen í frægri styttu af öðrum stjórnmálaskörungi, Viggo Hørup (1908), nefnilega að stytta fótleggi hennar rétt fyrir neðan hné og hækka stallinn um leið. En til þess að þetta bragð virki sem skyldi – og stallurinn sjálfur skeri myndina þegar horft er á hana úr lágu sjónarhorni – þarf stallurinn að vera öllu hærri en hann er. Eins og hann er nú er engu líkara en fæturnir hafi kubbast af. Að sögn Björns Th. Björnssonar sýnir Sigurjón Héðinn „í hita baráttu en köldum næðingi útifundar. Föt hans eru laus, vindurinn sveiflar til frakkalafi hans; annarri hendinni heldur hann niður með síðunni, en í henni hefur hann minnisblað … Sigurjón hefur hér auðsjáanlega viljað forðast þá lífvana stirðnun, sem eru óumflýjanleg örlög alls handasláttar í líkneskjum“ (Björn Th. Björnsson: Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld II, bls. 200).
-
Sigurjón Ólafsson
Íslandsmerki
Staðsett við Hagatorg Árið 1969 samþykkti borgarráð Reykjavíkur að fela Sigurjóni Ólafssyni að gera tillögu að minnisvarða til að minnast stofnunar íslenska lýðveldisins 1944. Minnisvarðinn er myndaður af fimm misháum súlum úr koparplötum sem standa á steyptum sökkli. Hugmyndin um súluna er miðlæg í allri listsköpun Sigurjóns. Þar kemur margt til, hugsanlega öndvegissúluminnið, en einnig helgar súlur fornra þjóða á borð við indjána á vesturströnd Norður-Ameríku, auk þess sem súlan nýtist mörgum formbyltingarmönnum þegar einfalda skal myndmálið. Súlan er einnig ævafornt minni hins upprétta manns sem stendur einn og óstuddur andspænis víðáttum heimsins. Súlan birtist í konumynd úr steini sem Sigurjón gerði árið 1939, í Öndvegissúlunum við Höfða frá 1971 og ótal smærri verkum listamannsins. Íslandsmerkið er einnig eitt af mörgum „hópmyndum“ sem Sigurjón gerði um dagana. Hann gerði til dæmis fjölskyldumyndir árið 1939, ýmist úr einu formi eða fleirum. Síðar gerði hann abstrakt hópverk úr lóðréttum einingum sem þó tengjast innbyrðis með ýmsum hætti. „Íslandsmerkið er … nánari útfærsla á hóphugmyndinni þar sem samtengingin milli forma verksins er að vísu hætt að vera áþreifanleg en byggir eingöngu á samspili og samhrynjandi frjálsra forma í rýminu“ (Auður Ólafsdóttir: „Frá súlu til Íslandsmerkis.“ Íslandsmerki og súlur Sigurjóns Ólafssonar).
-
Sigurjón Ólafsson
Klyfjahestur
Sett upp í Sogamýri 1966, flutt á Hlemmtorg 2005 Í tilefni af fimmtugsafmæli Sigurjóns Ólafssonar árið 1958 fól Reykjavíkurborg honum að gera bronsmynd af klyfjahesti sem skyldi komið fyrir á Hlemmi, en þar var forðum áningarstaður hestalesta til og frá Reykjavík. Einnig var áformað að koma fyrir á Hlemmi eftirlíkingu drykkjarþróarinnar sem þar var. Verkið sýnir folaldsmeri með klyfjum. Vinstra megin ber hún planka, en koffort og pinkla hægra megin. Í humátt á eftir henni töltir folald og hnusar að móður sinni. Folaldið er með í för til að árétta að listamaðurinn sé að fjalla um aðstæður fátæka bóndans sem ekki hafi efni á að hlífa folaldsmeri sinni við klyfjum. Sigurjón hafði ungur fylgst með bændum á ferð með klyfjaða hesta sína í kaupstaðaferðum á Eyrarbakka. Til er ljósmynd frá 1890 af slíkri kaupstaðarferð sem talið er að listamaðurinn hafi haft til hliðsjónar. Hann vann síðan að hugmyndinni á árunum 1959–63 og verkið var steypt í brons hjá Lauritz Rasmussen í Kaupmannahöfn 1965. Sökum kostnaðar var folaldið ekki sent til afsteypu fyrr en 1984.
-
Sigurjón Ólafsson
Klyfjahestur
-
Sigurjón Ólafsson
Minnismerki um Nínu Tryggvadóttur
Staðsett á stétt fyrir framan Kjarvalsstaði. Á annan steininn eru grafin minningarorð um Nínu Skömmu eftir andlát Nínu Tryggvadóttur listmálara (1913–68) hafði eiginmaður hennar, bandaríski vísindamaðurinn og myndlistarmaðurinn L. Alcopley, samband við Sigurjón Ólafsson og bað hann um að gera legstein á leiði konu sinnar. Sigurjón mun hafa lýst sig fúsan til þess en ekki getað sætt sig við fyrirliggjandi reglur um stærð legsteina. Bauð hann því Alcopley að gera sérstakan skúlptúr í minningu Nínu og lagði til að þeir gæfu borginni hann í sameiningu. Sigurjón lauk við skúlptúrinn 1974. Var hann settur upp við horn Kjarvalsstaða sunnanmegin og vígður 10. júní það ár. Skúlptúrinn er lóðréttur stokkur úr bronsi, heill að neðan en inndreginn tvisvar þegar ofar dregur. Þessir hvelfdu efri hlutar verksins kallast síðan á við járnstengur í tveimur pörum sem ganga út frá verkinu á víxl, efst og fyrir miðju, og gefa til kynna „kvenlega mýkt“ um leið og þær draga til sín opið rýmið allt um kring. Í umfjöllun um þennan skúlptúr talar Birgitta Spur, ekkja listamannsins, um hann sem „óð til konunnar“, sambland mýktar og jarðbundinnar festu, sbr. hnullungana báðum megin við stokkinn. Minnismerki um Nínu er í flokki fjölda annarra „súlumynda“ eða tótem-verka Sigurjóns, sbr. Íslandsmerkið og Öndvegissúlur, þar sem meðal annars koma saman minnið um hinn „upprétta mann“ og helgitákn fornra þjóða (sjá umfjöllun um þessi verk hér á vefsíðunni). Jafnframt sver það sig í ætt við nokkrar lágmyndir Sigurjóns úr eir fyrir það að á því eru í rauninni fjórar hliðar. Eftir gagngera viðgerð árið 2007, sem unnin var af Helga Gíslasyni myndhöggvara, var ákveðið að færa listaverkið yfir á stéttina fyrir framan Kjarvalsstaði þar sem það stendur nú skáhallt við innganginn.
-
Sigurjón Ólafsson
Ólafur Thors (1892-1964)
Verkið er staðsett við Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu.
-
Sigurjón Ólafsson
Öndvegissúlur
Staðsett við Höfða Um 1970 fól Reykjavíkurborg Sigurjóni Ólafssyni að gera standmynd sem setja mætti upp við Höfða, móttökuhús borgarstjórnar við Fjörutún. Listamaðurinn átti þá í gifturíku samstarfi við Gunnar Ferdinandsson járnsmið og vann verkið með aðstoð hans. Kápa verksins er gerð úr tilsniðnum eirplötum sem festar eru á öfluga stálgrind. Fyllt er upp í holrúm með steinsteypu. Verkinu var komið fyrir á háum steinsteyptum stöpli á túninu hægra megin við Höfða árið 1971. Sigurjón gaf verkinu aldrei sérstakt heiti, en Björn Th. Björnsson nefndi það Öndvegissúlur, og fór ekkja listamannsins fram á að það heiti yrði eftirleiðis notað. Verkið skemmdist í ofsaveðri 2002 og þá voru bæði burðarvirki og kápa þess endurnýjuð auk þess sem stöpull var lagfærður. Eins og nafnið gefur til kynna er Öndvegissúlur eitt af mörgum tilbrigðum Sigurjóns við súluformið (sjá umfjöllun um Íslandsmerkið hér á vefsíðunni) sem felur í senn í sér vísun til fornra helgisúlna (totem) og hins upprétta manns. Í þessu verki er manngerving (fígúrasjón) sérstaklega áberandi, þar sem uppréttu formin tvö, báðum megin við lóðréttu plötuna við miðbik, standa bæði á tveimur fótum, víkka upp eins og stílfærð kvenmannsform og skarta smáatriðum á borð við fingur. Loks enda þær á uppmjóum höfuðmyndum, opinmynntum eða tenntum. Í ljósi þessarar greinilegu manngervingar má velta því fyrir sér hvort nafngift verksins sé fyllilega réttmæt. Hvað snertir hugmyndir og form er skýr skyldleiki með Öndvegissúlum og Íslandsmerki enda eru verkin gerð um svipað leyti. Hins vegar er verkið Öndvegissúlur að því leyti ólíkt Íslandsmerki að það er ekki margar aðskildar súlur heldur tvö samhverf eða nánast samvaxin súluform.
-
Sigurjón Ólafsson
Saltfiskstöflun
Á Rauðarárholti, við innkeyrslu að Sjómannaskólanum við Háteigsveg. Sigurjón Ólafsson hafði ekki lokið formlegu námi sínu við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn þegar hann hófst handa við sitt mesta stórvirki til þess tíma, 12 m² lágmynd af konum að stafla saltfiski. Blaðamönnum sagði hann að verkið væri „hylling saltfisksins, sem er einasta auðlind Íslendinga“. Sigurjón hafði sjálfur staflað saltfiski sem unglingur og í kringum vinnustofu hans við Charlottenborg voru vöruhús með angandi fiski af Íslandsmiðum. Sigurjón hlóð lágmyndina fyrst upp í leir og notaði til þess sjö tonn af efni, en að því loknu var hún steypt í gifs. Sigurjón hafði áður gert myndir af verkafólki, en þær voru í anda félagslegs raunsæis. Í Saltfiskstöflun tekur hann annan pól í hæðina. Til að myndin nyti sín sem best úr fjarlægð þurfti hann að einfalda alla byggingu hennar og fleti. Einföldunina má kenna við þann knappa kúbisma sem þekktastur er undir nafninu „púrismi“ en hann var nokkuð til umræðu í Danmörku á fjórða áratug liðinnar aldar. Saltfiskstöflun er byggð á tveimur láréttum hæðarflötum og tveimur dýptarflötum. Á hæðunum tveimur er að finna átta standandi konur við saltfiskvinnu, fjórar hið efra og fjórar í neðra, ýmist uppréttar eða bograndi yfir hjólbörurnar og færa saltfiskinn af einum stað á annan. Láréttu fletirnir tveir eru tengdir saman með tveimur fiskum sem verið er að taka upp í staflann, „en þó ekki síður með háttbundinni endurtekningu í líkamsstöðunum, krossvega yfir flötinn“ svo vitnað sé til Björns Th. Björnssonar.
-
Sigurjón Ólafsson
Séra Bjarni Jónsson
Verkið er staðsett við Dómkirkjuna.
-
Sigurjón Ólafsson
Séra Friðrik og drengurinn
Á horni Amtmannsstígs og Lækjargötu Eins og margir aðrir hafði Sigurjón Ólafsson numið kristinfræði í æsku hjá sr. Friðriki Friðrikssyni (1868–1961) og var hlýtt til hans. Á stríðsárunum voru þeir báðir innlyksa í Danmörku þar sem Sigurjón gerði höfuðmynd af sr. Friðriki árið 1943 „áður en það yrði um seinan“ eins og hann komst að orði. Höfuðmyndin var til sýnis meðal annarra mannamynda Sigurjóns í Listvinasalnum 1952. Vaknaði þá áhugi meðal gamalla nemenda sr. Friðriks á að láta reisa hinum aldna æskulýðsleiðtoga verðugt minnismerki og var Sigurjón sjálfkjörinn til verksins. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, tók að sér fjársöfnun vegna minnismerkisins og samdi við yfirvöld, ríki og borg, um staðsetningu þess. Sr. Friðrik hóf að sitja fyrir hjá Sigurjóni vorið 1952 og varð þá til 60 sm há formynd úr leir sem listamaðurinn stækkaði til muna í Kaupmannahöfn þá um sumarið. Fyrirmynd drengsins sem stendur við hlið sr. Friðriks var annars vegar tréstytta af dreng eftir Tove, konu Sigurjóns, hins vegar ungur sonur samstarfsmanns hans. Minnismerkið stækkaði Sigurjón og fullvann í Kaupmannahöfn þar sem það var steypt hjá Lauritz Rasmussen. Stelling sr. Friðriks og uppbygging verksins ræðst ekki eingöngu af aldri hans og dvínandi þrótti, heldur birtist í þeim næmur skilningur á persónu og lífsstarfi kennimannsins. „Með því að stilla þeim hlið við hlið, prestinum og drengnum, og tengja þá saman með einfaldri skipan handanna, tekst Sigurjóni að gefa til kynna „hvílandi, góðlátan virðuleika“ sr. Friðriks, svo vitnað sé til orða Björns Th. Björnssonar, og innilegt samband hans við „drenginn, sem eru allir drengir“ (Aðalsteinn Ingólfsson: Sigurjón Ólafsson: Ævi og list, bls. 93). Að auki er sjálft höfuð sr. Friðriks frábær mannlýsing, þar sem allir fletir andlitsins bregðast við minnstu breytingu birtunnar.
-
Sigurjón Ólafsson
Sjómaðurinn
Verkið er staðsett við Dvalarheimili aldraðra við Hrafnistu Verkið er í eigu Hrafnistu.
-