Flokkar

 

Áratugur

Tómas Guðmundsson (1901-1983)

Tómas Guðmundsson (1901-1983)

Halla Gunnarsdóttir


  • Ár : 2010
  • Hæð : 144 cm
  • Breidd : 142 cm
  • Grein : Skúlptúr
  • Undirgrein : Málmskúlptúr

Verkið er staðsett við Tjörnina. Styttan sýnir Tómas Guðmundsson skáld þar sem hann situr ungur að árum á bekk með krosslagða fætur og styður hönd undir kinn. Engu er líkara en að þarna hafi Tómas gert hlé á göngu og tyllt sér niður. Fasið er rólegt en íhugult og hann horfir með bros á vör yfir að Menntaskólanum í Reykjavík þar sem hann eitt sinn sat í hinum fræga sextán skálda bekk ásamt Halldóri Laxness og öðrum póetískum unglingum. Setjast má hjá Tómasi á bekkinn og njóta þess að horfa á það umhverfi við Tjörnina sem hann gerði að yrkisefni. Skammt er frá styttunni að Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem erindi úr tveimur ljóðum skáldsins, Júnímorgni og Við Vatnsmýrina, eru skráð í glugga sem snúa út að Tjarnargötu og Iðnó. Sá Tómas sem hér situr á bekk er léttklæddur eins og á vori en jakkaföt hans og hárgreiðsla skírskota til fjórða áratugar liðinnar aldar þegar ljóðabókin Fagra veröld kom út árið 1933 með mörgum af frægustu Reykjavíkurljóðum Tómasar. Þá var hann 32 ára. Verkið hefur skýra vísun til Reykjavíkur sem felst meðal annars í borgarbekknum sem styttan situr á. Fyrir daga Tómasar höfðu fá ljóðskáld gert Reykjavík að yrkisefni, þar var hann brautryðjandi og hefur því oft verið kallaður „borgarskáldið“. Myndhöggvarinn Halla Gunnarsdóttir stundaði nám í höggmyndalist í New York, Flórens á Ítalíu og San Miguel de Allende í Mexíkó. Verk hennar hafa verið sýnd á Akureyri og í Reykjavík, svo og í New York og Washington í Bandaríkjunum.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann