• en
  • is

Listasafn Reykjavíkur / Reykjavik Art Museum

Nánari leit

Velja má fleiri en eitt skilyrði, eða sleppa þeim alfarið.

Flokkar

 

Áratugur

Guðmunda Andrésdóttir

Haustsól

Ár
1973
Hæð
100 cm
Breidd
115 cm
Grein
Málverk
Undirgrein
Olíumálverk

Árið 1971 hélt Guðmunda Andrésdóttir einkasýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Þar kynnti listakonan myndir sem hún hafði unnið að í hartnær fimm ár. Í Íslenskri listasögu II (bls. 150) er þessum verkum lýst með eftirfarandi hætti: „[Þær byggjast] á tvískiptum myndfleti og láréttri myndskipan. Láréttar línur liggja samhliða, þverar og endilangar, yfir myndflötinn: þær mynda nokkurs konar stöðug misbreið nótnastrik. Til að hleypa hreyfingu í hringformin notar Guðmunda boga- og sveiglínur sem magna upp kraftinn og hreyfigildið.“ Í grein um listakonuna í sýningarskrá verka hennar árið 2004 segir síðan: „Þannig verður hringformið, hreyfigildi þess, flatarkennd og rýmisverkun á myndfleti að grunnstefi rannsóknarferlis næstu þrjá áratugi“ (Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir: Guðmunda Andrésdóttir: Tilbrigði við stef, bls. 47–50). Verkið sem hér um ræðir, Haustsól er mynd þessarar gerðar, en ávæning þessarar formgerðar er einnig að finna í nokkrum öðrum verkum í eigu Listasafns Reykjavíkur. Í áðurnefndri sýningarskrá er myndmáli Guðmundu líkt við tilraunir módernískra myndlistarmanna á borð við Delaunay og Kupka til að yfirfæra tónlist á myndflöt: „Kupka „umritar“ ... tíma og hreyfingu á myndflötinn, líkt og tónskáld ef um tónverk væri að ræða.“ Í verkum Delaunay urðu litir „að tónum, littjáning birtist í fúgu, hring og spíralformum, sem færði líf í stöðugan strigann með dýnamískum formum og hrynjandi. ... Vísun í tónlistina er augljós ... litanotkun Guðmundu virðist þó oftlega vera hugsuð með hreyfigildi listformsins í huga, til að auka eða draga úr því, fremur en um litfræði, innri veruleika og samband lita ...“ (Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir: Sama rit).

Fleiri verk eftir sama listamann