Listasafn Reykjavíkur / Reykjavik Art Museum

Nánari leit

Velja má fleiri en eitt skilyrði, eða sleppa þeim alfarið.

Flokkar

 

Áratugur

Sverrir Haraldsson

Án titils

Ár
1951
Hæð
60 cm
Breidd
60 cm
Grein
Málverk
Undirgrein
Olíumálverk

Sverrir Haraldsson verður að teljast eitt af undrabörnum íslenskrar myndlistar. Fjórtán ára gamall var hann farinn að mála góðar landslagsmyndir, sextán ára var hann tekinn inn í Myndlista- og handíðaskóla Íslands í Reykjavík, yngstur íslenskra myndlistarmanna og tveimur árum síðar voru verk eftir hann tekin inn á haustsýningu FÍM. Sverrir hélt einkasýningu í Listamannaskálanum árið 1952 sem sýndi margvíslega hæfileika hans. Þó virtist hann framar öðru hafa áhuga á mjúklátri formgerð – bog- og sveiglínum og lífrænu myndmáli. Myndin sem hér um ræðir, Án titils, sýnir hvernig hann brýtur upp hið séða, hús og landslag, og steypir því saman með áherslu á mjúk form sem leggjast eins og slæður hvert yfir annað. Á árunum 1952–53 var listamaðurinn við nám í París og gekkst þar undir aga konkretlistar/strangflatalistar eins og þorri ungra íslenskra myndlistarmanna sem þar var við nám á þessu tímabili. Síðar fór Sverrir hörðum orðum um konkretmyndir sínar frá árunum 1952–55 og komst meðal annars svo að orði: „Þegar ég reyni að gera mér grein fyrir þessu nú sé ég að meðan ég var dýpst sokkinn í þessa geómetríu hef ég verið orðinn hálfblindur maður … Ég sá ekki náttúruna og varð ekki fyrir neinum áhrifum af henni. Ég var hættur að reagera gegn henni og jafnvel gegn sjálfu lífinu. Ég sá ekki lengur litina. … Maður þaut upp í sitt tilbúna turnherbergi og fór að glíma við að raða saman ferningum. ... Því lengra sem þetta gekk, því meira dofnuðu tilfinningarnar.“ Sverrir segir ennfremur: „Maður verður að viðurkenna mistök sín. Myndirnar mínar frá 1952–55 eru að vísu þáttur í leit minni að sjálfum mér. Ég get ekki afneitað þeim, enda engin ástæða til. Þær eru mínar syndir. … Eina hlutverk þeirra er að hjálpa mér til að sjá að mér. … Nú nota ég miklu meira hugmyndaflug mitt í landslagsmyndunum en nokkurn tíma í abstraktmyndunum á sínum tíma“ (Matthías Johannessen: Sverrir Haraldsson, bls. 49–50, 57).

Fleiri verk eftir sama listamann