Flokkar

 

Áratugur

Ásmundur

Ásmundur Sveinsson (1893–1982)

Ásmundur Sveinsson (1893–1982) var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Fyrr á árum mættu verk hans iðulega andstöðu og hörðum dómum en með tímanum hafa þau fest sig í sessi sem ein af birtingarmyndum íslenskrar sagnahefðar, samfélags og náttúru á 20. öld. Hann stundaði nám við Sænsku listakademíuna í Stokkhólmi undir handleiðslu myndhöggvarans Carls Milles. Í lok þriðja áratugar aldarinnar dvaldist Ásmundur í París um þriggja ára skeið og ferðaðist um Grikkland og Ítalíu. Sá tími hafði ekki síður áhrif á þróun hans sem listamanns en námsárin í Stokkhólmi. Ásmundur hélt alla tíð tryggð við þá afstöðu að listin ætti erindi til fólksins og ætti heima á meðal þess. Hann var kallaður alþýðuskáldið í myndlist og án efa á sú hugsjón rætur að rekja til lífsafstöðu hans ekki síður en höggmyndahefðarinnar. Mörg af verkum hans voru hugsuð sem hluti af opinberu rými, órofa hluti af umhverfi sínu eða útfærð sem hönnun og nytjahlutir.

Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg verk sín ásamt heimili sínu eftir sinn dag. Ásmundarsafn við Sigtún var opnað formlega vorið 1983. Verkin í safninu spanna alla starfsævi listamannsins og sýna þau hvernig listferill hans þróast og breytist á langri ævi. Einnig má finna fjölmargar höggmyndir eftir Ásmund Í opinberu rými í Reykjavík.

Í Ásmundarsafni eru haldnar sýningar á verkum listamannsins svo og verkum annarra listamanna. Í garðinum við Ásmundarsafn er einnig að finna mörg verka listamannsins sem hafa verið stækkuð eða unnin sérstaklega til að standa utandyra.

Listasafn Reykjavíkur á tæplega 2000 teikningar eftir Ásmund. Í þeim má finna fjölbreytt viðfangsefni; módelteikningar, helgimyndir, landslagsteikningar, formstúdíur, mannamyndir, afstrakt tilvísanir og einnig nokkurn fjölda teikninga sem tengja má við einstakar höggmyndir hans. Ásmundur fékk fyrst tækifæri til að læra teikningu þegar hann kom 22 ára gamall til Reykjavíkur árið 1915 til að nema tréskurð. Eftir það fara teikningarnar að streyma fram. Í safninu er að finna teikningar frá dvöl Ásmundar í Kaupmannahöfn og námsárunum í Stokkhólmi, síðan frá dvöl hans í París, ferðum suður um Evrópu, og loks eru þar teikningar sem tengjast listsköpun hans heima á Íslandi en teikningunum fækkar þegar líður á starfsævina.