Flokkar

 

Áratugur

Saltfiskstöflun

Saltfiskstöflun

Sigurjón Ólafsson


  • Ár : 1934-1935
  • Hæð : 400 cm
  • Breidd : 300 cm
  • Grein : Skúlptúr
  • Undirgrein : Steinskúlptúr

Á Rauðarárholti, við innkeyrslu að Sjómannaskólanum við Háteigsveg. Sigurjón Ólafsson hafði ekki lokið formlegu námi sínu við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn þegar hann hófst handa við sitt mesta stórvirki til þess tíma, 12 m² lágmynd af konum að stafla saltfiski. Blaðamönnum sagði hann að verkið væri „hylling saltfisksins, sem er einasta auðlind Íslendinga“. Sigurjón hafði sjálfur staflað saltfiski sem unglingur og í kringum vinnustofu hans við Charlottenborg voru vöruhús með angandi fiski af Íslandsmiðum. Sigurjón hlóð lágmyndina fyrst upp í leir og notaði til þess sjö tonn af efni, en að því loknu var hún steypt í gifs. Sigurjón hafði áður gert myndir af verkafólki, en þær voru í anda félagslegs raunsæis. Í Saltfiskstöflun tekur hann annan pól í hæðina. Til að myndin nyti sín sem best úr fjarlægð þurfti hann að einfalda alla byggingu hennar og fleti. Einföldunina má kenna við þann knappa kúbisma sem þekktastur er undir nafninu „púrismi“ en hann var nokkuð til umræðu í Danmörku á fjórða áratug liðinnar aldar. Saltfiskstöflun er byggð á tveimur láréttum hæðarflötum og tveimur dýptarflötum. Á hæðunum tveimur er að finna átta standandi konur við saltfiskvinnu, fjórar hið efra og fjórar í neðra, ýmist uppréttar eða bograndi yfir hjólbörurnar og færa saltfiskinn af einum stað á annan. Láréttu fletirnir tveir eru tengdir saman með tveimur fiskum sem verið er að taka upp í staflann, „en þó ekki síður með háttbundinni endurtekningu í líkamsstöðunum, krossvega yfir flötinn“ svo vitnað sé til Björns Th. Björnssonar.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann