Flokkar

 

Áratugur

Baráttan um Kyoto

Baráttan um Kyoto

Erró


  • Ár : 1974
  • Hæð : 210 cm
  • Breidd : 200 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Lakkmálverk

Þetta verk byggist á samspili tveggja atriða. Í neðri hlutanum gerði Erró eftirmynd af erótískri þrykkmynd eftir Isoda Koryusai af karlmanni og sex konum í ástarleik. Í efri hlutanum málaði hann stríðssenu úr amerískri teiknimyndasögu frá sjötta áratugnum. Vestrið er þannig í efri hlutanum, sturlað morðæði, herská heift, byssuskot og sprengingar og allt í æpandi litum með skörpum andstæðum. Austrið er í neðri hluta myndarinnar, kynlíf án sektarkenndar, leikandi og fágað, íhugul andlit og nákvæmar hreyfingar og allt saman málað á mildum litaskala. Þessar tvær senur eru samt sameinaðar með grafískri aðferð þar sem línan er aðalatriði, skálínan frá neðra horni hægra megin á málverkinu gengur í gegnum báða hópana og sekkur inn í myndrýmið. Spyrja má hvort eigi að lesa samspil myndhlutanna tveggja sem myndbirtingu á slagorði friðarsinna og stjórnleysingja frá sjöunda áratugnum: Farið í ástarleik, ekki stríðsleik. Eða er hugsanlegt að lesa hlutana tvo sem hliðstæður? Þá væri erótíska senan dulbúin stríðssena og orrustan og stríðið nokkurs konar erótísk hátíð.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann