Svörtu skýin
Ásmundur Sveinsson
- Ár : 1947
- Hæð : 90 cm
- Breidd : cm
- Grein : Skúlptúr
- Undirgrein : Steinskúlptúr
Haustið 1947 varð Ásmundur fyrir þeim harmi að missa dóttur sína, tæplega sex ára gamla, í bílslysi. Sama ár skapaði hann verkið Svörtu skýin, áhrifamestu birtingarmynd sorgar og missis sem um getur í íslenskri myndlist. Titill verksins er tvíræður og vísar annars vegar í stormský himinsins sem rífa allt með sér, en hins vegar í myrkur sálarinnar. Verkið er unnið í steinsteypu og hrafntinnu, þung og dökk efni sem draga fram tilfinningaþrungið inntak þess. Tröllsleg móðirin horfir örvæntingarfull til himins. Hún breiðir út faðminn eins og hún vilji umvefja barn sitt, en faðmurinn er tómur. Tómarúmið, andhverfa formsins, er þungamiðja verksins og jafnframt inntak þess. Það sem átti að vera þar er ei meir.
Veistu meira? Líka við Mitt safn