Móðurást
Ásmundur Sveinsson
- Ár : 1948
- Hæð : 63 cm
- Breidd : 38 cm
- Grein : Skúlptúr
- Undirgrein : Tréskúlptúr
Ásmundur vann þessa mynd fyrst í gifs, en útfærði hana síðan í eik. Verkið hefur einnig verið nefnt Tröllamóðir eða Maternité. Myndin Móðurást er stríðsádeila og segja má að í þessari einföldu formgerð vilji listamaðurinn draga fram eðli konunnar, móðurinnar, andspænis ógn og hryllingi stríðsins. Í samtali við Matthías Johannessen í Bókinni um Ásmund sagði listamaðurinn: „Og þarna er Móðurást. Þú sérð að hún er með barnið. Það er búið að skjóta af konunni annað brjóstið og gatið stendur eftir. Samvizkan er stundum götótt, góði. En gatið er nauðsynlegt vegna byggingar myndarinnar, segir einnig sína sögu. Konan reynir einbrjósta að vernda barnið sitt, bjarga því. Ég hef sagt við mæðurnar: Ég skora á ykkur að vinna gegn styrjöldum. Verndið börnin ykkar frá öllu illu, eins og segir í Faðirvorinu. Styrjaldir eru það versta af öllu illu.“
Veistu meira? Líka við Mitt safn