Flokkar

 

Áratugur

Veðurspámaður (stækkun)

Veðurspámaður (stækkun)

Ásmundur Sveinsson


  • Ár : 1934
  • Hæð : 190 cm
  • Breidd : 60 cm
  • Grein : Skúlptúr
  • Undirgrein : Steinskúlptúr

Verkið er staðsett í höggmyndagarði við Ásmundarsafn. Ásmundur skóp Veðurspámanninn í Reykjavík árið 1934. Myndin var síðan stækkuð í steinsteypu sumarið 1939. Hún sýnir mann sem gáir til veðurs. Þetta raunsæja og látlausa verk myndar eina massífa heild sem lífguð er með stöðu og viðmóti höfuðsins. Form mannsins er lokað, yfirborðið slétt og fágað og öll einstaklingsbundin einkenni eru hverfandi. Þetta verk er til í tveimur útgáfum. Í þeirri fyrri er maðurinn í klæðum, en í þeirri síðari, sem sennilega hefur orðið til í stækkuninni, er maðurinn nakinn. Þessi umskipti eru í fullu samræmi við þær breytingar sem urðu á list Ásmundar á fjórða áratugnum, þegar listamaðurinn hvarf frá hinni raunsæju og natúralísku sýn til mun táknrænni myndgerðar, þar sem lögð er áhersla á að draga fram og lýsa eðli mannsins. En þó svo að fyrri útgáfan sé öllu raunsærri, þá er hún einnig algild og „táknræn fyrir hinn íslenska aldanna veðurspámann til sjávar og sveita, – frumstæðan útivistarmann, en ekki nútíma tækni í veðurspám,“ eins og listamaðurinn komst að orði í dagblaðinu Vísi, 19. október 1939.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann