Flokkar

 

Áratugur

Öndvegissúlur

Öndvegissúlur

Sigurjón Ólafsson


  • Ár : 1971
  • Hæð : 340 cm
  • Breidd : cm
  • Grein : Skúlptúr
  • Undirgrein : Málmskúlptúr

Staðsett við Höfða Um 1970 fól Reykjavíkurborg Sigurjóni Ólafssyni að gera standmynd sem setja mætti upp við Höfða, móttökuhús borgarstjórnar við Fjörutún. Listamaðurinn átti þá í gifturíku samstarfi við Gunnar Ferdinandsson járnsmið og vann verkið með aðstoð hans. Kápa verksins er gerð úr tilsniðnum eirplötum sem festar eru á öfluga stálgrind. Fyllt er upp í holrúm með steinsteypu. Verkinu var komið fyrir á háum steinsteyptum stöpli á túninu hægra megin við Höfða árið 1971. Sigurjón gaf verkinu aldrei sérstakt heiti, en Björn Th. Björnsson nefndi það Öndvegissúlur, og fór ekkja listamannsins fram á að það heiti yrði eftirleiðis notað. Verkið skemmdist í ofsaveðri 2002 og þá voru bæði burðarvirki og kápa þess endurnýjuð auk þess sem stöpull var lagfærður. Eins og nafnið gefur til kynna er Öndvegissúlur eitt af mörgum tilbrigðum Sigurjóns við súluformið (sjá umfjöllun um Íslandsmerkið hér á vefsíðunni) sem felur í senn í sér vísun til fornra helgisúlna (totem) og hins upprétta manns. Í þessu verki er manngerving (fígúrasjón) sérstaklega áberandi, þar sem uppréttu formin tvö, báðum megin við lóðréttu plötuna við miðbik, standa bæði á tveimur fótum, víkka upp eins og stílfærð kvenmannsform og skarta smáatriðum á borð við fingur. Loks enda þær á uppmjóum höfuðmyndum, opinmynntum eða tenntum. Í ljósi þessarar greinilegu manngervingar má velta því fyrir sér hvort nafngift verksins sé fyllilega réttmæt. Hvað snertir hugmyndir og form er skýr skyldleiki með Öndvegissúlum og Íslandsmerki enda eru verkin gerð um svipað leyti. Hins vegar er verkið Öndvegissúlur að því leyti ólíkt Íslandsmerki að það er ekki margar aðskildar súlur heldur tvö samhverf eða nánast samvaxin súluform.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann