Flokkar

 

Áratugur

Minnismerki um Nínu Tryggvadóttur

Minnismerki um Nínu Tryggvadóttur

Sigurjón Ólafsson


  • Ár : 1970-1971
  • Hæð : 690 cm
  • Breidd : 180 cm
  • Grein : Skúlptúr
  • Undirgrein : Blönduð tækni

Staðsett á stétt fyrir framan Kjarvalsstaði. Á annan steininn eru grafin minningarorð um Nínu Skömmu eftir andlát Nínu Tryggvadóttur listmálara (1913–68) hafði eiginmaður hennar, bandaríski vísindamaðurinn og myndlistarmaðurinn L. Alcopley, samband við Sigurjón Ólafsson og bað hann um að gera legstein á leiði konu sinnar. Sigurjón mun hafa lýst sig fúsan til þess en ekki getað sætt sig við fyrirliggjandi reglur um stærð legsteina. Bauð hann því Alcopley að gera sérstakan skúlptúr í minningu Nínu og lagði til að þeir gæfu borginni hann í sameiningu. Sigurjón lauk við skúlptúrinn 1974. Var hann settur upp við horn Kjarvalsstaða sunnanmegin og vígður 10. júní það ár. Skúlptúrinn er lóðréttur stokkur úr bronsi, heill að neðan en inndreginn tvisvar þegar ofar dregur. Þessir hvelfdu efri hlutar verksins kallast síðan á við járnstengur í tveimur pörum sem ganga út frá verkinu á víxl, efst og fyrir miðju, og gefa til kynna „kvenlega mýkt“ um leið og þær draga til sín opið rýmið allt um kring. Í umfjöllun um þennan skúlptúr talar Birgitta Spur, ekkja listamannsins, um hann sem „óð til konunnar“, sambland mýktar og jarðbundinnar festu, sbr. hnullungana báðum megin við stokkinn. Minnismerki um Nínu er í flokki fjölda annarra „súlumynda“ eða tótem-verka Sigurjóns, sbr. Íslandsmerkið og Öndvegissúlur, þar sem meðal annars koma saman minnið um hinn „upprétta mann“ og helgitákn fornra þjóða (sjá umfjöllun um þessi verk hér á vefsíðunni). Jafnframt sver það sig í ætt við nokkrar lágmyndir Sigurjóns úr eir fyrir það að á því eru í rauninni fjórar hliðar. Eftir gagngera viðgerð árið 2007, sem unnin var af Helga Gíslasyni myndhöggvara, var ákveðið að færa listaverkið yfir á stéttina fyrir framan Kjarvalsstaði þar sem það stendur nú skáhallt við innganginn.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann