Flokkar

 

Áratugur

Sæmundur á selnum

Sæmundur á selnum

Ásmundur Sveinsson


  • Ár : 1926
  • Hæð : 300 cm
  • Breidd : 190 cm
  • Grein : Skúlptúr
  • Undirgrein : Málmskúlptúr

Verkið er staðsett við Háskóla Íslands Ásmundur gerði frumgerðina af Sæmundi á selnum í Stokkhólmi í desember árið 1922. Var sú mynd nokkuð frábrugðin þessu verki sem listamaðurinn mótaði í gifs í París síðla árs 1927. Var verkið stækkað og steypt í brons árið 1970 og komið fyrir á svæðinu framan við aðalbyggingu Háskóla Íslands. Myndin sýnir Sæmund á baki selsins (skrattans) og hefur hann reitt Saltarann til höggs. Verkið lýsir því tilteknu andartaki í samskiptum Sæmundar og djöfsa. Allt er gert til að miðla hreyfingu og krafti augnabliksins þegar Sæmundur keyrir Saltarann í haus djöfulsins. Formrænt byggist verkið á tveimur andstæðum kröftum sem þó mynda eina samfellda heild. Annars vegar er það form selsins, aflíðandi með mjúkum línum, og hins vegar form Sæmundar, hlaðið öflugri hreyfingu og spennikrafti. Þessi andstæðu form eru tengd saman þannig að afturhreifar selsins virka líkt og framlenging á kraftlínu Sæmundar. Myndefnið sækir Ásmundur í þjóðsöguna um Sæmund fróða: „Þegar þeir Sæmundur, Kálfur og Hálfdan komu úr Svartaskóla, var Oddinn laus, og báðu þeir þá allir kónginn að veita sér hann. Kóngurinn vissi dável, við hverja hann átti, og segir, að sá þeirra skuli hafa Oddann, sem fljótastur verði að komast þangað. Fer þá Sæmundur undir eins og kallar á kölska og segir: „Syntu nú með mig til Íslands, og ef þú kemur mér þar á land án þess að væti kjóllafið mitt í sjónum, þá máttu eiga mig.“ Kölski gekk að þessu, brá sér í selslíki og fór með Sæmund á bakinu. En á leiðinni var Sæmundur alltaf að lesa í Saltaranum. Voru þeir eftir lítinn tíma komnir undir land á Íslandi. Þá slær Sæmundur Saltaranum í hausinn á selnum, svo hann sökk, en Sæmundur fór í kaf og synti til lands. Með þessu varð kölski af kaupinu, en Sæmundur fékk Oddann“ (Sigurður Nordal: Þjóðsagnabókin II). Verkið er í eigu Háskóla Íslands.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann