Flokkar

 

Áratugur

Áfangar

Áfangar

Serra, Richard


  • Ár : 1990
  • Hæð : 300 cm
  • Breidd : 50 cm
  • Grein : Skúlptúr
  • Undirgrein : Steinskúlptúr

Listaverkið Áfangar var unnið að frumkvæði Listahátíðar í Reykjavík en eigandi þess er Listasafn Reykjavíkur. Áfangar er umhverfislistaverk sem leggur undir sig alla Vesturey og setur sterkan svip á ásýnd hennar og umhverfi. Listaverkið er úr stuðlabergi og vísar þannig til jarðsögu eyjarinnar og undirstrikar um leið órjúfanleg tengsl þess við umhverfi sitt. Listaverkið er byggt upp á níu stuðlabergspörum sem sett eru á sömu hæðarlínurnar á útjaðri eyjarinnar, þannig að annar strendingurinn stendur á níu metra hæðarlínu yfir sjávarmáli og hinn á tíu metra hæðarlínu. Strendingarnir eru jafnir að ofan þannig að annar þeirra er fjögurra metra hár og hinn þriggja metra hár og jöfn hæð þeirra þrettán metrar yfir sjávarmáli. Bilið milli þeirra ákvarðast af landhallanum í þá stefnu sem valin er milli stuðlanna. Öll stuðlabergspörin eru sýnileg af hæsta punkti eyjunnar sem er átján metrar yfir sjávarmáli. Listaverkið Áfangar ber mörg einkenni minimalískrar myndlistar; margfalda endurtekningu sömu formanna, öxullausa samhverfu symmetríu, stærðfræðilega reglu og beinskeytt áhrif á nánasta umhverfi. Öll þessi atriði er gott að hafa í huga þegar verkið er skoðað, en þó eru þau engin forsenda þess að umhverfis og listar verði notið á Vesturey. Stuðlabergspörin eru heillandi áningarstaðir þar sem list og náttúra renna saman í eina heild.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann