Flokkar

 

Áratugur

Frönsk skógarmynd

Frönsk skógarmynd

Jóhannes S. Kjarval


  • Ár : 1928
  • Hæð : 90 cm
  • Breidd : 105 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Eftir að Kjarval flutti heim árið 1922 fór hann einungis í eina langa ferð til útlanda, en það var Frakklandsferð sem hann fór árið 1928 og dvaldi þá í París um hálfs árs skeið. Kjarval lagði leið sína í skógana utan við París til að mála úti. Í skógarmyndum Kjarvals frá Frakklandi má greina impressjónísk áhrif og tilraunir til að fanga þau síbreytilegu lit- og ljósbrigði sem skapa stemmningu augnabliksins. Með samblandi af mjúkri áferð olíulitarins, sem minnir á pastelkrít, og fínlegri pensilteikningu nær hann fram undraverðum léttleika í túlkun sinni á vorkomu í skóginum. Pensilför eru stutt og snögg, andstæðulitir mynda skugga og birtu, litur er lagður létt á léreftið sem sumstaðar glittir í gegn um þunna málninguna. Verk þessi geisla af náttúruhrifningu listmannsins sem gefur sig unaði vorkomunnar á vald. Þau sex ár sem hann hafði búið á Íslandi eftir að námi hans lauk, hafði hann verið leitandi í landslagstúlkun sinni og í raun ekki lagt megináherslu á að mála landslag því önnur verkefni höfðu tekið stóran hluta af tíma hans og áhuga. Eftir Frakklandsdvölina varð útimálverk í íslenskri náttúru eitt meginviðfangsefni hans.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann