Flokkar

 

Áratugur

Úr Húsafellsskógi

Úr Húsafellsskógi

Ásgrímur Jónsson


  • Ár : 1941
  • Hæð : 100 cm
  • Breidd : 139.8 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Haustið 1938 leitaði Ásgrímur Jónsson sér lækninga í þýska smábænum Reichenhall í Bæjaralandi, en þar var víðfrægt heilsuhæli fyrir astmasjúklinga. Þar dvaldi listamaðurinn fram á sumar 1939 en tókst jafnframt að endurnýja kynni við gömul átrúnaðargoð, Cézanne, Renoir og van Gogh, og skoða þau verk þeirra sem finna mátti í München. Í ævisögu sinni, Myndir og minningar, segir Ásgrímur: „Hreifst ég ákaflega af hinni þróttmiklu list þeirra og fannst mér ég skynja hana í miklu dýpra og skírara ljósi en nokkru sinni fyrr“ (bls. 184). Um framhaldið segir Björn Th. Björnsson í myndlistarsögu sinni: „Dró sú endurkynning vafalaust drýgstan skerf til þeirra miklu umbreytinga sem komu að fullu fram í málverki Ásgríms á Húsafelli sumarið 1941 og helguðu list hans næstu sjö árin. … Í málverkum þessum er fátt eftir af hinni rólyndu náttúruskoðun fyrri ára. … Nú er það hið volduga og andstæðuþrungna líf nálægðarinnar sem grípur hug hans allan, glíma fjörs og feigðar, lífsstríð gróðursins á yztu mörkunum við ríki frerans. … Hvergi er jörðin heitari í litum, hvergi gróskumeiri, en við þessi landamerki auðnarinnar. Engu er líkara en Ásgrímur hafi fundið það sammerkt með sér og þessu lífi, að því nær sem sé mörkum tortímingarinnar, þeim mun alefldari kraft þurfi til. Málverk þessi ná enda langt út fyrir sviðið eitt sem þau sýna: Þau eru stórbrotinn og fagnandi lofsöngur um mátt lífsins í hinni ævarandi glímu hér á jörð.“ Og Björn heldur áfram: „Það er þó ekki fyrst og fremst þessi innfjálga og andstæðumikla tjáning sem minnir á van Gogh, heldur túlkunarmátinn. Eins og hann notar Ásgrímur á þessu tímabili mjög þykka og ákveðna litdrætti … og beitir þeim gjarnan í stuttum, samhliða förum, en næsta lit svo aftur misvísandi, þannig að milli þeirra verði ekki aðeins litaspenna, heldur og árekstur í gerðinni sjálfri, er kveikir af sér innri óróleika. … Með þessu móti tekst honum að vekja hvern streng náttúrunnar til starfs í myndum sínum; hver birkistofn, hvert skýjablik á þar sitt lifandi hlutverk“ (Björn Th. Björnsson: Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld I, bls. 136–138).

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann