Gamla búðin í Grindavík
Gunnlaugur Scheving
- Ár : 1961
- Hæð : 130 cm
- Breidd : 145 cm
- Grein : Málverk
- Undirgrein : Olíumálverk
Gunnlaugur Scheving dvaldi öðru hvoru í Grindavík á árunum 1939–47. Fyrst var hann þar í boði Sigvalda Kaldalóns, læknis og tónskálds, en síðan á eigin vegum. Í ritgerð sinni um Gunnlaug segir Gunnar J. Árnason: „Ekki er ofsögum sagt að Gunnlaugur hafi endurfæðst sem listamaður í Grindavík og nýtt tímabil hefst í myndlist hans. Í Grindavík finnur hann ekki aðeins nýjan innblástur fyrir myndlist sína, heldur er hann í öruggu og áhyggjulausu umhverfi meðal fólks sem var listhneigt og jákvætt gagnvart starfi hans“ (Gunnar J. Árnason: Gunnlaugur Scheving: Yfirlitssýning / Retrospective, bls. 24). Gunnlaugur hafði áður málað eina mynd úr gamalli verslun í Reykjavík, Í búðinni (1931; eig. Íslandsbanki), en á árunum 1940–41 málaði hann tvær búðarmyndir í Grindavík, og er önnur í eigu Listasafns ASÍ, en hin í eigu Listasafns Háskóla Íslands. Til eru nokkrar formyndir þessara verka, gerðar með vatnslitum eða krít, en þriðju útgáfuna með þessu viðfangsefni, og þá litríkustu og stærstu (130 x 145 sm), gerði Gunnlaugur löngu síðar, á árunum 1960–61. Þá útgáfu eignaðist Reykjavíkurborg. Eldri myndirnar tvær eru keimlíkar að útliti og vinnubrögðum, þær sýna allar ílangt afgreiðsluborð sem liggur þvert yfir flötinn að neðanverðu; þar standa bæði viðskiptavinir og búðarþjónn. Ofan úr rjáfri hanga koppar og kirnur, í baksýn eru rauðar dyr og gluggi að götunni. Myndin frá 1960–61 er umfangsmeiri, hefur ef til vill stækkað í minningunni, og sýnir bæði viðskiptavin, staka konu, og búðarþjóna frá öðru sjónarhorni.
Veistu meira? Líka við Mitt safn