Flokkar

 

Áratugur

Við Selsvör

Við Selsvör

Snorri Arinbjarnar


  • Ár : Án ártals
  • Hæð : 65.5 cm
  • Breidd : 75.5 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Í grein um málverk Snorra Arinbjarnar segir Kristín G. Guðnadóttir í sýningarskrá árið 2006: „Listamenn á borð við Snorra, Gunnlaug Scheving, Þorvald Skúlason og Jón Engilberts settu manninn og mannlega tilvist í öndvegi. Þeir túlkuðu líf og kjör hins vinnandi manns í bæjarsamfélagi eða önnur hversdagsleg myndefni sem lutu að daglegu lífi sem einkenndist af kreppu, skorti og atvinnuleysi. ...Verk Snorra frá kreppuárunum fjalla þó ekki um vinnuna sem slíka eða hinn vinnandi mann. Þau snúast fremur um félagslega einangrun og samskiptaleysi í lamandi ástandi kreppunnar. Fólkið í myndum hans er óskilgreint, það er eins og vofur sem reika um bæinn án takmarks og tilgangs, bærinn er umgjörð utan um merkingarlausa tilvist mannsins. Kreppan birtist í verkum Snorra bæði sem félagslegt og tilvistarlegt ástand, tómleikinn og tilgangsleysið er þrúgandi. Kreppuáramyndir hans aðgreina sig á þennan hátt frá verkum annarra málara af hans kynslóð sem fengust við svipuð myndefni“ (Kristín G. Guðnadóttir: Snorri Arinbjarnar: Máttur litarins og spegill tímans, bls. 14). Á stríðsárunum hóf Snorri að slá á nýja strengi „hvað varðar myndefni, formgerð og litróf. Í sumum verka hans er hlýr, innilegur, allt að því rómantískur tónn. … Sú sýn sem blasti við sýningargestum var sterk, heil og ljóðræn. Form verka hans voru stærri og einfaldari en áður, litir heitari og efnismeiri og fjarvíddarvirkni á undanhaldi ... Snorri valdi eftir sem áður hversdagsleg myndefni: skip og báta, höfnina, slippinn, húsin og bæjargötuna; einn og einn vörubíll slæddist inn í myndir hans. ... [Þau voru] honum hvati til að tjá upplifun sína í formum, litum og línum“ (Kristín G. Guðnadóttir: Sama rit, bls. 16–17). Málverkið Frá Selsvör er frá þessu skeiði í myndlist Snorra. Það fangar eftirminnilega „kyrr kjör“ alþýðunnar upp til sveita eða við sjávarsíðuna sem séð hefur á eftir sínum bestu sonum og dætrum til Reykjavíkur. Eftir standa auð hús, fúnandi bátar í vör og vörubíll án bílstjóra. Um leið er málverkið sjálfstæð litræn og formræn upplifun.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann