Flokkar

 

Áratugur

Hvítalog

Hvítalog

Svavar Guðnason


  • Ár : 1968
  • Hæð : 90.5 cm
  • Breidd : 135 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Upp úr 1960 sagði Svavar Guðnason skilið við „flatarmálsfræðina“, þ.e. geómetríska myndlist sjötta áratugarins, og hóf aftur að leita á vit náttúrunnar. Júlíana Gottskálksdóttir segir um þessi umskipti í sýningarskrá árið 1990: „Samt urðu verk hans engin endurtekning á því sem hann hafði gert áður heldur var sem hann leitaðist við að leysa upp alla formgerð og láta litastrokurnar leika frjálst á myndfletinum. Hughrifin frá náttúrunni voru augljós og tjáningin ljóðræn, stundum allt að því impressjónísk eins og í verkunum Leysing, Ljósflökt og Ljósblik sem öll eru frá árinu 1962. Liturinn er stundum borinn þunnt á með spaða svo skín í gegn og áferðin minnir á vatnsliti. Leiðir gagnsæi litanna hugann að síbreytileika náttúrunnar sem listamaðurinn hefur tjáð og nöfnin gefa til kynna. ... Svavar hafði raunar unnið að því sama á stríðsárunum í Kaupmannahöfn, en tjáning hans var expressjónísk og fremur sprottin af minningu um náttúru en beinum hughrifum“ (Júlíana Gottskálksdóttir: Svavar Guðnason 1909–1988, bls. 46). Segja má að þessi nýi „náttúruexpressjónismi“ hafi fyrst fengið útrás fyrir alvöru í stórmyndinni Veðrið (240 x 400 sm) sem listamaðurinn málaði fyrir listskreytingarsjóð danska ríkisins (Statens Kunstfond) árið 1963. Um þá mynd segir Júlíana: „Mjúklega dregnar litabrautir virðast liðast eftir fletinum í ákveðinni hrynjandi eða ólmast hver um aðra. ... Hver blettur er kvikur, og hrynjandi formanna leiðir hugann að beljandi vatnsflaumi“ (Júlíana Gottskálksdóttir: Sama rit, bls. 47–49).

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann