Flokkar

 

Áratugur

Án titils, (Nótt)

Án titils, (Nótt)

Jóhanna Kristín Yngvadóttir


  • Ár : 1985
  • Hæð : 120 cm
  • Breidd : 110 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Myndlistarferill Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur varð ekki langur því að hún lést aðeins 37 ára gömul. Á tæplega tíu ára tímabili skapaði hún sér sérstöðu í íslensku myndlistarlífi með einlægum, sérstæðum og tilfinningaríkum málverkum sem voru fremur í anda gamla þýska expressjónismans en „nýja málverksins“ sem var ríkjandi stefna á þroskaskeiði hennar. Myndir sínar notaði Jóhanna Kristín til að sviðsetja og brjóta til mergjar ýmislegt það sem á henni hvíldi hverju sinni. Kvenpersónur þessara mynda eru aðþrengdar, einangraðar og berskjaldaðar í lífsins ólgusjó. Þær eru fáklæddar og tælandi, ekki ósvipað og skapanornirnar sem koma fyrir í málverkum Edvards Munch, en hins vegar ber líkamstjáning þeirra og staðsetning iðulega vott um nauð eða örvinglan. Konurnar eru yfirleitt eins konar hornrekur, hoknar, lokaðar og samanbitnar, gjarnan með hendur og fótleggi í hnút. Karllægir hlutar myndanna, ágeng fallísk form eða skuggar af körlum í baksýn, eru eins konar viðvarandi ógn í þessum myndum; sjá einnig Ballerína hvílir sig í eigu Listasafns Reykjavíkur (LR-0288) frá 1982 og Björg (LR-2568) frá 1984. Í myndinni Án titils (Nótt) sjáum við kvenpersónu, ekki ólíka listakonunni sjálfri, sem hörfað hefur út í myndjaðarinn til vinstri; sófinn sem hún situr á hefur ummyndast í einhvers konar dýr með trýni og vængi sem sækir að henni úr hinni áttinni. Í viðtali við Morgunblaðið, 9. desember 1984, sagði Jóhanna Kristín þetta um hugmyndaheim sinn: „Líf mannsins heillar mig mikið, örlög mannsins. Ég þarf alltaf að vita hvernig fólk deyr, hvort það hefur þjáðst.“

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann