Flokkar

 

Áratugur

Börn að leik

Börn að leik

Barbara Árnason


  • Ár : 1952
  • Hæð : 115 cm
  • Breidd : 147 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Barbara Árnason var ákaflega fjölhæf listakona, listmálari, vatnslitamálari, afburða teiknari, myndskreytir og textíllistamaður, og er þá ekki allt nefnt. Sérstaklega þótti hún næmur túlkandi barnslegrar vitundar, eins og sést í portrettmyndum hennar af börnum, myndskreytingum í barnabókum og síðast en ekki síst, í veggmyndunum sem hún gerði fyrir Melaskóla í Reykjavík á árunum 1952–53. Um þær segir Björn Th. Björnsson í listasögu sinni: „Allt árið 1952 dvöldust þau Barbara og Magnús [Á. Árnason, eiginmaður hennar] í París, en heimkomin tókst hún á hendur stærsta verkefni sitt til þessa – og raunar enn sem komið er – sem var myndskreyting heils veggjar í anddyri Melaskólans í Reykjavík. Í veggskreytingu þessari, sem er þurrmálverk (al secco), ríður hún saman, líkt og möskva á net, ýmislegt úr skólagöngu, leikjum og sumarlífi barnsins: Drengirnir gerast uppstertir og búast í slag, en sem spémyndir þeirra eru hanar í bakgrunninum, sízt ófúsari í duglega rimmu; litlu börnin þræða sig í gegnum kynjaskóg, þar sem blöðin eru samansett af eintómum tölustöfum, en stærri telpurnar hafa myndað þéttan hring og hvíslast á æsilegum leyndarmálum; börnin snúa töðu og eltast við kálf í haga. Til myndskrauts notar hún tóntákn og opnar, fljúgandi bækur.“ Og Björn heldur áfram: „Enda þótt myndirnar segi sögu, eru þær samt veggskreyting í réttri merkingu þess orðs. Engin tilraun er gerð til þess að rjúfa flötinn með sýnd fjarvíddar né heldur með mótun litanna, og enn fremur lúta myndirnar engri umgerð, annars en takmarka veggjarins. En þótt Barbara réðist hér í stórt verk, í metrum talið, er í rauninni enginn eðlismunur á því og hinum smærri myndum hennar“ (Björn Th. Björnsson: Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld II, bls. 232). Myndin í eigu Listasafns Reykjavíkur er ein af formyndum þessarar myndskreytingar.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann