Flokkar

 

Áratugur

Án titils

Án titils

Karólína Lárusdóttir


  • Ár : 1986
  • Hæð : 120 cm
  • Breidd : 120 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Snemma á níunda áratugnum hóf Karólína Lárusdóttir að mála stórar mannamyndir sem byggðar voru á æskuminningum hennar í Reykjavík á öndverðum sjötta áratug liðinnar aldar og ljósmyndasafni í eigu fjölskyldu hennar. Þá hafði hún átt heimili árum saman í Bretlandi og kynnt sér bæði mannamyndahefð Breta og Endurreisnartímabilið á Ítalíu. Hér er iðulega um að ræða hópmyndir þar sem fjölskylda eða vinir eru sýndir við afmarkaðar aðstæður, ekki síst á ferðalögum eða lautarferðum á Þingvöllum, en þangað ferðaðist fjölskylda Karólínu reglulega að sumarlagi. Sterkt einkenni á þessum hópmyndum er sýnileg vöntun á innbyrðis samskiptum fólksins; hver manneskja er eins og í eigin heimi, úr tengslum við aðra. Fólkið forðast augnsamband, situr eða stendur og horfir hvert í sína áttina, gjarnan með samanbitnar varir. Sú mynd sem hér birtist er ein af mörgum tilbrigðum Karólínu við þetta stef frá öndverðum níunda áratugnum. Hér er fólki skipað niður í tvo „hópa“, karl og konu fremst til vinstri sem einhvern tíma hafa verið samrýmd, og síðan ósamstæðan hóp fyrir miðju. Þótt myndin einkennist af ágætu litrænu samræmi fólks og náttúru, er eins og allir viðstaddir séu ómeðvitaðir um það umhverfi sem þeir hrærast í, athygli þeirra beinist ýmist inn á við eða að málaranum/ljósmyndaranum. Hér eru einnig að verða til „karólínskar“ kven- og karltýpur, þær fyrrnefndu klæddar bláum og rauðum kápum sem oft má sjá í myndum Karólínu. Karlpersónur listakonunnar eru luralegar og fara sér hægt. Öðrum þræði má sennilega líta á þessa mynd Karólínu og aðrar myndir í svipuðum dúr sem rannsóknir á „Íslendingseðlinu“.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann