Flokkar

 

Áratugur

Orðstír

Orðstír

Karl Kvaran


  • Ár : 1974
  • Hæð : 140 cm
  • Breidd : 180 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Í tilefni af yfirlitssýningu á verkum Karls Kvaran í Listasafni Íslands 2010 segir Ásdís Ólafsdóttir svo í sýningarskrá um verk listamannsins á öndverðum áttunda áratugnum: „Með sérsýningu í Bogasalnum í nóvember 1968 hefur orðið talsverð breyting á list hans. Í gvassmyndunum, unnum á næstliðnum tveimur árum, hafa fíngerðar, kantaðar línur, sem hlykkjast um litaðan myndflötinn líkt og stílfærðar eldingar, leyst þykka lóð- og lárétta grindina af hólmi; skálínur og óregluleg form koma í stað ferninga. … Næstu umskipta í list Karls varð vart á sýningu hans í Bogasalnum þremur árum síðar. Þá hafði hann innleitt bogadregin form og stækkað litfletina. Einnig hafði orðið sú breyting á að línur voru ekki allar jafn skýrt dregnar og áður og sumar smituðu út frá sér á allt að því lífrænan hátt. ... Í nóvember 1974 hélt hann stóra sýningu í Norræna húsinu þar sem gaf að líta … stór olíumálverk þar sem myndefnið var annaðhvort hrynjandi brotinna hringja eða stór hringform bæði úr fíngerðum og kröftugum línum. ... Það sem einkennir ... olíuverk Karls eftir 1974 er að þau eru unnin æ ofan í æ og glittir iðulega í eldri pensilför og línur undir yfirborðinu. Þetta ágerist eftir því sem á leið og myndirnar urðu knappari í formi og lit“ (Ásdís Ólafsdóttir: Karl Kvaran, bls. 18–19). Myndin Orðstír, ásamt fleiri í svipuðum dúr, urðu til á næstu árum. Um tilurð þeirra segir Ásdís Ólafsdóttir: „Upp úr 1973–1974 vann [Karl] syrpu með lífrænum bylgjuformum þar sem litur og lína haldast í hendur. Þessi verk eiga vissan skyldleika við myndir Þorvaldar Skúlasonar af lygnum og bylgjum, nema að línur Karls eru mun mýkri og liggja í hring, meðan form Þorvaldar stefna í eina átt út úr myndfletinum“ (Ásdís Ólafsdóttir: Sama rit, bls. 20).

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann