Flokkar

 

Áratugur

Fljúgandi teppi

Fljúgandi teppi

Eyjólfur Einarsson


  • Ár : 1990
  • Hæð : 165 cm
  • Breidd : 200 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Listferill Eyjólfs Einarssonar hófst snemma á sjöunda áratug liðinnar aldar og spannar því röska hálfa öld. Á þessum tíma kom listamaðurinn víða við áður en hann gerði sér þann draumkennda myndheim sem hann er nú þekktur fyrir. Eyjólfur lét fyrst að sér kveða sem expressjónískur abstraktmálari. Síðar átti sér stað í verkum hans þróun í átt til lífrænnar formgerðar með súrrealísku sniði. Óhlutbundinn súrrealismi Eyjólfs færðist smám saman í átt til óræðs en þó hlutbundins veruleika á mörkum draums og veruleika. Sömu mótífin – strengjabrúður, skip, hringekjur, turnbyggingar – koma þar fyrir aftur og aftur, í mismunandi samhengi og við draumkennd birtuskilyrði. Mannverur þessara mynda renna gjarnan saman í andlitslausan mannsöfnuð sem er ýmist leiksoppur æðri afla eða fórnarlamb aðstæðna. Á seinni árum hafa „draumamyndir“ Eyjólfs stækkað til muna og formgerð þeirra orðið æ einfaldari. Fljúgandi teppi (1990) er einkennandi fyrir nýrri málverk Eyjólfs. Verkið er mikið um sig, einfalt í sniðum og byggt upp með einfaldri samlíkingu að því er virðist auðþekkjanlegra fyrirbæra, teppis og skipsskrokks. En myrkt, órætt rýmið og sérkennilegt litrófið í myndinni, í bland við vöntun á auðsýnilegum tengslum fyrirbæranna tveggja, vekur upp spurningar, efasemdir – og ugg – sem skapa viðvarandi myndræna spennu. Neðra fyrirbærið gæti verið skipsskrokkur í sandi (í goðafræðinni flytur bátsmaðurinn Karon mannfólkið yfir á dauðalendur á nökkva sínum), en líka steinkista; hvað hefur hún að geyma? Og „fljúgandi teppi“ bernskuævintýranna, vokandi yfir kistunni/skipinu, líkist engu frekar en dumbrauðri (blóðugri?) ábreiðu, ef til vill eins konar líkklæði eða hjúp. Með góðum vilja má því líta á þetta verk Eyjólfs sem persónulega hugleiðingu hans um upprisu Krists eða Maríu Guðsmóður.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann