Sumarkvöld við Reykjavík
Þórarinn B. Þorláksson
- Ár : 1904
- Hæð : 47.5 cm
- Breidd : 77.5 cm
- Grein : Málverk
- Undirgrein : Olíumálverk
Júlíana Gottskálksdóttir lýsir málverkum Þórarins B. Þorlákssonar með þessum orðum: „Flestar landslagsmyndir Þórarins eru mannlausar. Þá sjaldan maðurinn birtist þar, er hann aðkomumaður í landinu, maður sem hugsar eða saknar einhvers, ekki maður sem býr í sveitinni og samsamast landinu. Í þessum myndum er engin atburðarás. Það, sem gerist, er í huga mannsins sem hefur tyllt sér niður. Til eru fáeinar myndir sem sýna karl eða konu sitja við sjó og horfa út á sundin við Reykjavík. Þau snúa baki við áhorfandanum og horfa í átt til skips eða báts sem siglir burt. Í þessum myndum má finna andblæ, er leiðir hugann að þeirri rómantísku hefð sem kennd er við Caspar David Friedrich og gera má ráð fyrir að Þórarinn hafi þekkt til“ (Júlíana Gottskálksdóttir: Þórarinn B. Þorláksson: Brautryðjandi í byrjun aldar). Vísast á Júlíana hér við tvær þekktustu myndir Friedrichs, Munkinn á ströndinni (1809) og Ferðalang ofar skýjum (1818), sem báðar sýna stakar manneskjur andspænis yfirþyrmandi óravíðáttum hins óþekkta og eru lykilverk í allri umræðu um „upphafningu“ eða „hið súblíma“ í myndlist. Enduróm ofangreindra (og annarra) mynda Friedrichs er að finna í nokkrum málverkum eftir Þórarin. Verkið í eigu Listasafns Reykjavíkur vísar þráðbeint til Friedrichs og nægir þar að nefna flata skuggamynd konunnar, dulúðugt andrúmsloftið og ójarðneska birtuna.
Veistu meira? Líka við Mitt safn