Sálræn fóstureyðing
Gunnar Örn Gunnarsson
- Ár : 1971
- Hæð : 115 cm
- Breidd : 80 cm
- Grein : Málverk
- Undirgrein : Olíumálverk
Gunnar Örn Gunnarsson var sjálflærður myndlistarmaður en bjó að næmu litaskyni og tónlistargáfum sem nýttust honum vel á hartnær þrjátíu ára ferli. Gunnar Örn kom fyrst fram á sjónarsviðið snemma á áttunda áratugnum og vakti þá athygli fyrir kröftuga litameðferð og ofsafengna meðhöndlun mannslíkamans. Þar voru tveir listamenn honum mikilvægari fyrirmyndir en aðrir, breski listmálarinn Francis Bacon og bandarískur starfsbróður hans, Willem de Kooning. Af Bacon lærði Gunnar Örn að brjóta upp líkamsformið og tefla því fram með dramatískum hætti. Hvað de Kooning varðar, gætir áhrifa frá sitjandi konumyndum hans í mörgum myndum Gunnars Arnar auk þess sem uppbrot litanna og spaðaáferð á sér ýmsa hliðstæðu í verkum Bandaríkjamannsins. Á árunum 1968–74 ber töluvert á umfjöllun um ómanneskjulegt umhverfi mannsins og meðfylgjandi vanmátt og firringu hans í íslenskri myndlist. Þar gætir örugglega áhrifa frá því pólitíska umróti sem gekk yfir Vesturlönd á þessum árum, þar sem flest gildi voru tekin til endurskoðunar. Meðal helstu listmálara, sem fóru fram undir merkjum viðhorfs- og þjóðfélagsgagnrýni, voru Einar Hákonarson, Gunnar Örn, Eiríkur Smith og Róska, en hér má einnig nefna til sögunnar málverk og grafíkmyndir Jóhönnu Bogadóttur, Ragnheiðar Jónsdóttur, Jóns Reykdal, skúlptúra Helga Gíslasonar og veggteppi Hildar Hákonardóttur. Úti í heimi tók Erró síðan undir þá gagnrýni á ómennskuna sem birtist í verkum þeirra sem hér hafa verið nefnd.
Veistu meira? Líka við Mitt safn