Flokkar

 

Áratugur

Altaristafla

Altaristafla

Magnús Kjartansson


  • Ár : 1993
  • Hæð : 180 cm
  • Breidd : 374 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Blönduð tækni

Árið 1994 hélt Magnús Kjartansson tímamótasýningu á Kjarvalsstöðum. Þar voru öll verkin í sama dúr, feiknarstór og máluð brúnum litum, gerð með blandaðri tækni (olíulitum, sagi og lími á striga eða viðarplötur, með aðskotahlutum), mörg hver í tveimur eða fleiri einingum. Sýningin sætti tíðindum vegna inntaks verkanna, en þau fjölluðu öll um mann og trú, nánar tiltekið um trúarlega þörf mannsins, þrá hans eftir einhvers konar andlegri fullvissu og persónuleg samskipti hans við „æðri máttarvöld“. Þessi „trúarlegu“ verk frá 1992–94 eru í senn einföld að byggingu og margræð að merkingu. Oftast nær beinir listamaðurinn sjónum að einu eða tveimur andlitum sem mörkuð eru mikilli lífsreynslu, aldri eða þjáningu og miðlað þráðbeint til okkar, ótrufluð af litrófi og flókinni myndbyggingu. Áherslur hverrar myndar beinast því inn á við, inn í hugarheim fólksins sem sýnt er. Sammerkt með mörgu þessu fólki er að það hylur að hluta ásjónur sínar, eins og það fyrirverði sig fyrir að opinbera angur sitt eða óhamingju fyrir öðrum, og margar myndanna eiga sameiginlegt að í þeim er að finna tákn fyrir mögulega sáluhjálp eða úrlausn hins innri vanda, ef mannfólkið vill nýta sér slík hjálpartæki. Í þessu tilfelli er fjöl skorðuð milli myndeininganna/andlitanna tveggja, og við hana eru festir tveir hlutir, símtól hið efra og krossmark hið neðra, og liggur símasnúra á milli. Í fljótu bragði gæti þetta viðhengi gefið til kynna að lausn hugarangursins felist í því að taka upp „símann“ og eiga beint samtal við Jesú Krist eða Guð. En svo ódýr lausn er ekki í anda Magnúsar. Eins líklegt er að upplegg hans sé írónískt, að gefið sé til kynna að lausn á sálarangist hvers og eins felist einmitt ekki í notkun „hjálpartækja“, hvort sem um er að ræða „krossinn“ eða eitthvað annað, heldur í eigin sálarstyrk – og hjálpræði annarra manna. Því mætti allt eins líta á fjölina fyrir miðju, mitt á milli andlitanna, og „hjálpartækin“ sem festar eru á hana sem eins konar hindrun sem aðskilji fólk fremur en að sameina það.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann