Flokkar

 

Áratugur

Sjálfsmynd á grænum skóm

Sjálfsmynd á grænum skóm

Louisa Matthíasdóttir


  • Ár : 1993
  • Hæð : 179.5 cm
  • Breidd : 108.5 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Louisa Matthíasdóttir var rúmlega tvítug þegar hún málaði fyrstu sjálfsmyndina. Síðan tók við langt tímabil þar sem listakonan helgaði sig myndefni af allt öðrum toga. Sjálfsmyndir í fullri stærð hóf Louisa að gera um miðjan sjöunda áratuginn, í þann mund sem Temma dóttir hennar hóf háskólanám fjarri heimahögum, en síðan hætti hún að gera slíkar myndir skömmu eftir að eiginmaður hennar, Leland Bell, lést árið 1991. Sjálfsmyndir listakonunnar í fullri stærð virðast því hafa sérstaka þýðingu fyrir hana. Sú mynd sem hér birtist er ein af síðustu sjálfsmyndum Louisu af þessu tagi. Jed Perl segir „kristalstærum ljóma“ stafi af þessum sjálfsmyndum og bætir við: „Á árum áður hafði hún prjónað sér röndótta peysu í áberandi litum sem hún klæðist í sumum þessara málverka. Þessi strangflataflík – nokkurs konar hamur til að breyta konumynd í abstraksjón – leiðir hugann að öðrum tilraunum tuttugustu aldar listamanna, svo sem fatnaðarins sem Sonia Delaunay hannaði. Hér er um að ræða skemmtilega tvíræðni: málverkið túlkar flík sem er sjálf túlkun á einhverju öðru. Að auki er enn annar túlkunarmöguleiki fyrir hendi, nefnilega að með því að prjóna sér peysu sé Louisa að vísa til gróinnar prjónahefðarinnar á Íslandi; veft með flatarmálsmynstri er einmitt meðal helstu gersema Þjóðminjasafns Íslands. Louisa, sem aldrei gerir meira úr hlutunum en efni standa til, ýjar að öllum þessum merkingum án þess að þröngva þeim upp á okkur. Hún stendur bara hnarreist fyrir augliti okkar. Þótt hún sé komin á níræðisaldur er hún enn glæsileg, af henni stafar stillilegur og frjálslegur myndugleiki“ (Jed Perl: Louisa Matthíasdóttir, bls. 158).

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann