Flokkar

 

Áratugur

Le Bain turc (Tyrkneska baðhúsið)

Le Bain turc (Tyrkneska baðhúsið)

Erró


  • Ár : 1979
  • Hæð : 101 cm
  • Breidd : 74 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Á áttunda áratugnum málaði Erró margar syrpur um geimferðir og notaði þá einkum myndir sem hann fékk hjá NASA, Geimferðastofnun Bandaríkjanna. Oft stillti hann upp hetjulegum ljósmyndum af bandarískum geimförum sem gerðar voru í þjóðernislegu áróðursskyni og hins vegar munúðarfullum myndum af nöktum konum úr listasögunni. Að sigra geiminn tengist þannig á skoplegan hátt ástarsigrum og dregur úr hetjulegri vídd geimferðanna. Í Tyrkneska baðinu eru geimfarar í heimsókn í kvennabúri í málverki eftir Ingres. Annars vegar birtist stífleiki og karlmennskudáð, hins vegar losti og kvenleg íhygli. Í baksýn eru geimfarar sem standa stoltir á himni eins og hálfguðir, þeir gnæfa yfir þrýstnum ambáttum kvennabúrsins, ódalískunum, sem eru í faðmlögum í forgrunni og þekja tvo þriðju myndflatarins. Frá brosandi andliti geimfarans efst í vinstra horni liggur lína niður að nakinni konu sem lyftir upp handleggjunum neðst til hægri. Þannig myndast tengsl milli myndheimanna tveggja í málverkinu og brosið tengist frekar nærveru hinna fögru ambátta en afrekum geimferðanna.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann