Flokkar

 

Áratugur

Kjarval

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972)

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972) skipar sérstakan sess í íslenskri menningarsögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar. Hann var goðsögn í lifanda lífi og í augum margra persónugervingur hins rómantíska listamannabóhems. Rætur hans lágu í hinu íslenska bændasamfélagi, en líf hans og listsköpun tengist menningarlegri viðreisn þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar órjúfanlegum böndum. Hann er þekktastur fyrir túlkun sína á náttúrunni og sérstaklega fyrir þann dulúðuga myndheim sem birtist í verkum hans. Á löngum ferli Kjarvals sem listmálara helst sú grundvallarsýn hans óbreytt að náttúran sé lifandi þó að áherslurnar í verkum hans þróist og breytist.

Kjarval ánafnaði Reykjavíkurborg hluta listaverka sinna og persónulegra muna árið 1968. Listaverkagjöf Kjarvals voru aðallega teikningar og skissur. Hluti gjafarinnar var sýndur í fyrsta sinn við opnun Kjarvalsstaða árið 1973. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin; bæði hafa verk verið keypt en einnig hafa ýmsir einstaklingar fært safninu ómetanlegar gjafir.

Fastasýning á verkum Kjarvals er á Kjarvalsstöðum. Þar er leitast við að kynna listsköpun hans og einstaka þætti hennar fyrir gestum safnsins.

Jóhannes S. Kjarval - Teikningar

Kjarval hefur réttilega verið kallaður meistari línunnar. Á námsárunum í Kaupmannahöfn lagði hann mikla áherslu á teikningu því honum fannst þessum þætti vera ábótavant í undirbúningi sínum. Alla tíð síðan var teikning órjúfanlegur þáttur í sköpunarferlinu. Teikningar Kjarvals, skissur og ýmiss konar riss endurspegla ævintýralegt ímyndunarafl í óheftri og frjálslegri tjáningu. Þegar svo bar undir rissaði hann hugmyndir sínar á þann pappír sem hendi var næstur, sendibréf, umslög, sígarettuöskjur, servíettur eða víxileyðublöð. Auk þess notaði hann vandaðan teiknipappír af ýmsum stærðum og gerðum eða eitthvað óhefðbundnara, svo sem maskínupappír eða ýmsar tegundir af gegnsæjum pappír. Listasafn Reykjavíkur á 5160 teikningar eftir Kjarval. Hér er má sjá lítið úrval þeirra.

Jóhannes S. Kjarval - Málverk

Listasafn Reykjavíkur á um 180 málverk eftir Kjarval. Flest þeirra voru máluð eftir 1935. Árið 1929 hóf Kjarval að mála undir berum himni og málaði oft fjölda mynda frá sama stað þannig að þær sýna vel hversu síbreytileg náttúran er eftir árstíð, veðri og birtu. Á fimmta áratugnum fékk forgrunnurinn sífellt meira vægi í landslagsverkum Kjarvals, sjónarhornið þrengdist og að lokum varð áferð og litbrigði hrauns og mosa aðalefni myndanna. Þrátt fyrir áhersluna á landslagið fékkst Kjarval einnig við að mála portrettmyndir, óhlutbundnar myndir og fígúratíf verk sem oftast voru táknsæ en stundum með frásagnarlegu ívafi. Hvað formið snertir eru fantasíur Kjarvals hver annarri ólíkar en sömu táknin eða leiðarstefin birtast þó aftur og aftur. Á fimmta áratugnum bar mest á huglægum fantasíum, en á þeim sjötta tók Kjarval í vaxandi mæli að persónugera hin ýmsu öfl náttúru og veðurs, svo sem snjó, þoku, vinda, ský og norðurljós.