Portrett af Halldóri Laxness
Erró
- Ár : 1984-85
- Hæð : 130 cm
- Breidd : 195 cm
- Grein : Málverk
- Undirgrein : Lakkmálverk
Allan sinn feril hefur Erró málað ævisögumálverk eða „frásagnarportrett“ af mismunandi þekktum einstaklingum. Árið 1985 afhjúpaði hann ævisögumálverk af Nóbelsskáldinu Halldóri Laxness og var það gjöf til Reykjavíkurborgar. Verkið tjáir sýn frásagnarmálarans á einn fremsta frásagnarrithöfund evrópskra bókmennta. Í myndbyggingunni og vali á myndefni er allt gert til að undirstrika mikilfengleik skáldsins. Málverkið byggist á mismunandi „andlitum“ Halldórs sem Erró hefur m.a. fengið að láni hjá þekktum íslenskum myndlistarmönnum. Megináhersla er lögð á tvær stórar ofurraunsæjar andlitsmyndir, málaðar með aðferðum helgimynda. Englarnir minna á trúhneigð skáldsins en eru líka fulltrúar hinnar himnesku fegurðar. Víkingaferðir, til lands og sjávar, vitna um sigurgöngu hins víðförla rithöfundar, baráttu hans og einnig minni úr skáldskap hans. Mount Everest, hæsta fjall í heimi, má eflaust túlka sem táknmynd þess hve Halldór rís hátt sem rithöfundur og mikilvægi hans í augum þjóðarinnar.
Veistu meira? Líka við Mitt safn