Flokkar

 

Áratugur

Haustsól

Haustsól

Guðmunda Andrésdóttir


  • Ár : 1973
  • Hæð : 100 cm
  • Breidd : 115 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Árið 1971 hélt Guðmunda Andrésdóttir einkasýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Þar kynnti listakonan myndir sem hún hafði unnið að í hartnær fimm ár. Í Íslenskri listasögu II (bls. 150) er þessum verkum lýst með eftirfarandi hætti: „[Þær byggjast] á tvískiptum myndfleti og láréttri myndskipan. Láréttar línur liggja samhliða, þverar og endilangar, yfir myndflötinn: þær mynda nokkurs konar stöðug misbreið nótnastrik. Til að hleypa hreyfingu í hringformin notar Guðmunda boga- og sveiglínur sem magna upp kraftinn og hreyfigildið.“ Í grein um listakonuna í sýningarskrá verka hennar árið 2004 segir síðan: „Þannig verður hringformið, hreyfigildi þess, flatarkennd og rýmisverkun á myndfleti að grunnstefi rannsóknarferlis næstu þrjá áratugi“ (Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir: Guðmunda Andrésdóttir: Tilbrigði við stef, bls. 47–50). Verkið sem hér um ræðir, Haustsól er mynd þessarar gerðar, en ávæning þessarar formgerðar er einnig að finna í nokkrum öðrum verkum í eigu Listasafns Reykjavíkur. Í áðurnefndri sýningarskrá er myndmáli Guðmundu líkt við tilraunir módernískra myndlistarmanna á borð við Delaunay og Kupka til að yfirfæra tónlist á myndflöt: „Kupka „umritar“ ... tíma og hreyfingu á myndflötinn, líkt og tónskáld ef um tónverk væri að ræða.“ Í verkum Delaunay urðu litir „að tónum, littjáning birtist í fúgu, hring og spíralformum, sem færði líf í stöðugan strigann með dýnamískum formum og hrynjandi. ... Vísun í tónlistina er augljós ... litanotkun Guðmundu virðist þó oftlega vera hugsuð með hreyfigildi listformsins í huga, til að auka eða draga úr því, fremur en um litfræði, innri veruleika og samband lita ...“ (Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir: Sama rit).

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann