Æskulýðsleiðtoginn sr. Friðrik Friðriksson
Ríkarður Jónsson
- Ár : 1924
- Hæð : 80 cm
- Breidd : 48 cm
- Grein : Skúlptúr
- Undirgrein : Málmskúlptúr
Verkið er staðsett við Valsheimilið að Hlíðarenda. Verkið er í eigu Íþróttafélagsins Vals. Ríkarður Jónsson gerði brjóstmynd af æskulýðsfrömuðinum séra Friðrik Friðrikssyni árið 1924. Séra Friðrik, sem var frumkvöðull á vettvangi íþrótta og trúmála, var fæddur að Hálsi 25. maí 1868 og lést í Reykjavík 9. mars 1961. Hann varð stúdent í Reykjavík 1893 og stundaði nám við Háskólann í Kaupmannahöfn í nokkur ár en þar kynntist hann starfi KFUM. Þegar hann sneri aftur til Íslands gekk hann í prestaskólann og lauk þar prófi árið 1900. Árið áður hafði hann stofnað KFUM í Reykjavík og varð aðalstarf hans fólgið í að veita æsku Reykjavíkur leiðsögn í trúmálum og íþróttum. Hann lagði grunn að starfi íþróttafélagsins Vals við Hlíðarenda við rætur Öskjuhlíðar. Saga Vals og saga sr. Friðriks eru þannig samofin og hafa orð hans „látið kappið aldrei bera fegurðina ofurliði“ verið fleyg í gegnum tíðina. Valsmenn halda mikið upp á minningu sr. Friðriks og halda fast í þá hefð að safnast saman að morgni fæðingardags hans og heilsa upp á brjóstmyndina eftir Ríkarð.
Veistu meira? Líka við Mitt safn