Flokkar

 

Áratugur

Haginn grænn

Haginn grænn

Jón Stefánsson


  • Ár : 1954-56
  • Hæð : 100 cm
  • Breidd : 130 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Frá upphafi ferils síns málaði Jón Stefánsson myndir af hestum. Meðal allra fyrstu olíumálverka sem eftir hann liggja er Hestur við búðardyr (1917; LÍ-1606). Þær myndir sem Jón málaði af hestum á árunum 1924–35 eru ásamt landslagsmyndum hans hluti af myndrænni skilgreiningu hans á „Íslendingseðlinu“ sem var mjög til umræðu meðal fræðimanna og listamanna á árunum milli stríða. Þar er mönnum tíðrætt um þá eiginleika sem gerðu Íslendingum kleift að lifa af veðráttu, hafísa og eldgos á landinu öldum saman. Talað var um „áunna“ hreysti Íslendinga, þrautseigju, aðlögunarhæfni og staðfestu. Hestamyndir Jóns á þessu tímabili eru allar myndlíkingar þessara eiginleika, hver með sínum hætti. Á fimmta áratug aldarinnar verður breyting á myndlist Jóns í átt til aukins expressjónisma og rómantískrar íhygli sem lýsir sér meðal annars í bjartara litrófi og frjálslegri vinnubrögðum. Hestamyndir listamannsins fara ekki varhluta af þessum breytingum. Frá árinu 1942 eða þar um bil eru hestar hans yfirleitt ekki sýndir sem sterkir „einstaklingar“, heldur sem órofa hlutar stærri náttúruheildar. Þetta er og einkenni á Haganum grænum sem hér um ræðir. Hér á sér stað klassísk þrískipting myndflatarins í forgrunn, miðbik og bakgrunn. Hins vegar gnæfir hér ekkert fjall yfir vettvangi, heldur dreifast áherslur nokkuð jafnt um hann, og hestar og menn mynda litlar, fínlega málaðar einingar sem kallast á innan sköpunarverksins.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann