Flokkar

 

Áratugur

Konumynd

Konumynd

Þorvaldur Skúlason


  • Ár : 1942
  • Hæð : 140 cm
  • Breidd : 100 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Eftir að Þorvaldur Skúlason kom heim frá Frakklandi árið 1940 gaf hann sig að myndefnum og tjáningarhætti sem tengdust íslensku umhverfi og listþróuninni í landinu. Verk hans frá 1940 og til loka heimsstyrjaldarinnar einkennast af hlutbundnum expressjónisma þar sem listamaðurinn samlagar ýmis viðhorf erlendrar nýlistar sérkennum sem bera í sér sterkan íslenskan blæ. „Merkasti áfanginn á þessu skeiði í list Þorvalds er óefað sýning sú sem hann hélt haustið 1943 í Listamannaskálanum ásamt með Gunnlaugi Scheving,“ segir Björn Th. Björnsson. „Þar kom þessi endurnýjun fram í fullum þroska sínum, stærri og mýkri í gerð formanna og samleik en áður, og ekki sízt fyrir þá sök, að myndgerð þessi gaf þróttmikilli teikningu hans meira svigrúm en fyrr. Í málverkum þessum var hann ekki að lýsa hlutunum hið ytra, heldur þeirri hugð sem þeir vekja af sér: Kona hvílist á stól, með hönd undir kinn, svipur hennar fjarhugull“ (Björn Th. Björnsson: Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld II, bls. 210). Verkið sem hér um ræðir, Konumynd, er ein af þremur mikilsverðum myndum af sitjandi konum sem Þorvaldur gerði á árunum 1939–42. Sú elsta þeirra, Kona að lesa í bók (Listasafn Háskóla Íslands) er gerð rétt áður en Þorvaldur kom til landsins. Í henni má sjá samantekt á ýmsum eðlisþáttum myndlistar bæði Picassos og Matisse. Um hana segir Björn Th. Björnsson: „Andlit stúlkunnar er mótað með heilum litflötum … og á greinilega ætt að rekja til grímunnar í myndum kúbistanna“ (Björn Th. Björnsson: Þorvaldur Skúlason, brautryðjandi íslenzkrar samtímalistar, bls. 71). Í Listasafni Háskóla Íslands er síðan að finna þriðja tilbrigðið um þetta stef, Sitjandi konu (1942), þar sem konan situr í tágastól með hendur í skauti. Um hana segir Björn Th. Björnsson: „Höfuðlitirnir, mettaðir bláir, brúnir og dimmgrænir, búa yfir kyrrð og stöðugleika. … Teikningin býr yfir fullkomnu jafnvægi, og með sama hæga mótinu og litirnir; tvær innhverfar línur, í gluggatjaldinu og fótstöðu konunnar, vega að fullu á móti stellingu hennar í stólnum, þannig að engin röskun – og jafnvel ekki grunur röskunar – verður á þeirri djúpu og innilegu rósemi sem hér er tjáð“ (Björn Th. Björnsson: Þorvaldur Skúlason, brautryðjandi íslenzkrar samtímalistar, bls. 100). Sennilegt er að eiginkona Þorvalds, Astrid, hafi setið fyrir á öllum myndunum.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann