Flokkar

 

Áratugur

Frá Vestmannaeyjum

Frá Vestmannaeyjum

Júlíana Sveinsdóttir


  • Ár : 1946
  • Hæð : 61 cm
  • Breidd : 72 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Júlíana Sveinsdóttir málaði fyrstu mynd sína frá Vestmannaeyjum árið 1912, hún sýnir Ystaklett. Myndin Frá Vestmannaeyjum sem hér birtist er meðal fyrstu mynda sem Júlíana málaði í heimahögum sínum árið 1946 eftir níu ára dvöl í Danmörku. Björn Th. Björnsson segir svo frá tildrögum myndarinnar: „Á styrjaldarárunum síðari dvaldist Júlíana enn í Danmörku, þannig að langur tími leið svo hún komst ekki heim. Þegar … hún vitjaði átthaga sinna, sorfinna kletta Vestmannaeyja með dimmgrænar húfurnar, var sem allt stæði fyrir henni í nýju ljósi. Og málverk hennar úr Eyjum sumarið 1946 eru vafalaust hátindurinn á listferli hennar til þess tíma. Þar þurrkar hún út hvert óþarft lýsingaratriði og skynjar kaldan mikilfengleikann í heilli sjónhendingu. Köld og grængrá hvikan liggur eins og laungrimmt dýr milli lands og Yztakletts. Landmegin teygjast fram dimmar og sorfnar klappirnar, en handan við kólguna rís kletturinn með djúpum skuggum í bergþilinu, þessi forni brimbrjótur Eyjanna, og stórviðrin standa skrifuð í svip hans. Svo sem reginöfl hafs og lofts halda hér skapi sínu í skefjum, þannig er og litum myndanna haldið stranglega niðri, við grátt, blágrænt og brúnt, en undir er sífelld spenna, sem leitar uppreisnar gegn taumhaldinu. Um þetta tímabil segir Júlíana sjálf: „Engu var líkara en haldið væri um höndina á mér. Ég málaði þarna í einni lotu, án þess að breyta pensildrætti, og það var eins og hver skynjun mín skrifaðist ósjálfrátt á léreftið; og ég sem hef alla tíð átt svo erfitt með að mála““ (Björn Th. Björnsson: Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld I, bls. 169–171).

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann