Flokkar

 

Áratugur

Spenna

Spenna

Hafsteinn Austmann


  • Ár : 1981
  • Hæð : 150 cm
  • Breidd : 200 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Hafsteinn Austmann er einn merkasti núlifandi fulltrúi abstraktmyndlistar á Íslandi. Rætur hennar má rekja til abstraktmyndlistar í Frakklandi á árunum 1950–60, en þar var Hafsteinn við nám um miðjan áratuginn. Sérstakt einkenni á málaralist Hafsteins var mýkt bæði litaáferðar og myndbyggingar og gagnsæi sjálfra litanna, en hvorttveggja tengist óefað viðvarandi áhuga listamannsins á vatnslitatækni. Framan af árum stóð hugur Hafsteins til fíngerðra, ljóðrænna abstraktmynda í „frönskum“ stíl, en þegar kom fram á áttunda áratuginn hóf listamaðurinn í auknum mæli að líta til átaka- og áferðarmeiri myndlistar, franskrar jafnt sem bandarískrar. Þar kom einnig til náið samneyti við Þorvald Skúlason sem nokkrum árum áður hafði tekið málaralist sína til endurskoðunar. Í bók um myndlist Hafsteins Austmanns segir Aðalsteinn Ingólfsson: „Það var... í „hreyfimyndum“ Þorvalds af Ölfusánni sem Hafsteinn fann sér formskipan sem gerði hvorttveggja í senn að styðja við það sem gerist í litrófi myndanna og mynda sjálfstætt og síkvikt net af línum ofan á þessu litrófi. … Þrátt fyrir það birtast okkur mjög ólíkir listamenn, Þorvaldur yfirvegaður, dálítið kaldhamraður upp á franskan máta í formskipan sinni, lítið fyrir að láta skeika að sköpuðu, en Hafsteinn hvatvís, rómantískur í litavali og laginn við úrvinnslu á skyndilegum hugdettum“ (Aðalsteinn Ingólfsson: xxxxxxxxxxxxxx, bls. xx). Málverkið sem hér um ræðir einkennist bæði af mikilli hreyfingu forma og línuverks, og mjög nákvæmri útlistun formanna. Innbyggt ójafnvægi myndskipaninnar, þar sem megináherslur liggja vinstra megin á fletinum, er fremur óvenjulegt þegar Hafsteinn á í hlut. Verk Þorvalds leiða hugann að umbreytingum í náttúrunni, en það er aftur á móti eins og Hafsteinn hafi til hliðsjónar óravíddir himingeimsins, þar sem gervitungl og himintungl svífa um á sporbaugum sínum, umvafin ójarðneskri birtu.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann