Flokkar

 

Áratugur

Miðnæturbirta

Miðnæturbirta

Hringur Jóhannesson


  • Ár : 1983
  • Hæð : 100 cm
  • Breidd : 85 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Allan myndlistarferil sinn hafði Hringur Jóhannesson fyrir sið að dvelja á bernskuheimili sínu í Haga í Aðaldal mestan hluta hvers sumars og vinna úr því efni sem hann hafði sankað að sér yfir veturinn, svo og því sem við honum blasti í túninu heima. Frá fyrstu tíð teiknaði Hringur landslag, dýr og annað smálegt sem hann rakst á, en um 1970 var hann farinn að gera málverk í raunsæisstíl af hversdagslegum hlutum. Efni flestra þessara mynda var sótt í þéttbýlið; þarna eru verk í yfirstærð af rakvél, póstlúgu, hurð, gleraugum, svo og verk sem tengjast ferðalögum: bílspeglar, bílljós, hjólför, umferðarljós. Árið 1971 hafði Hringur komið sér upp þægilegri vinnustofu í Haga og hafði þá aðstöðu til að gera stærri málverk á staðnum. Um miðjan áttunda áratuginn hóf hann að taka til endurskoðunar ýmis gömul mótíf „með það fyrir augum að auka á myndræna reisn þeirra og áhrifamátt“ (Aðalsteinn Ingólfsson: Hringur Jóhannesson, bls. 70). Þar á meðal voru ýmsir hlutir, ættaðir úr túninu í Haga: heysátur, tunnur, heyvinnuvélar og fleira. Í formála að bók Aðalsteins um listamanninn segir Björn Th. Björnsson: „Rétt eins og himinninn getur speglazt í tærum vatnsdropa, þannig getur og smáveröldin í myndum Hrings vísað langt út fyrir sjálfa sig. Örlítið mýrarauga, grónar götur eftir hófatraðk aldanna, reipi og hagldir í hlöðudyrum, biðukolla á móti bláum himni, allt er það í senn sjónræn lifun, uppgötvun augans, sem og hluti lands, náttúru og þjóðar í víðum skilningi.“ Í þessum verkum, þ.á.m. Miðnæturbirtu, virðir listamaðurinn áfram „heilsteyptan veruleika þeirra hluta eða náttúrufyrirbæra sem hann málar. En birta og hlutur eru ekki lengur glöggt aðgreind, eins og í eldri málverkum, heldur er engu líkara en hluturinn drekki í sig birtuna og verði eitt með henni“

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann