Flokkar

 

Áratugur

Við Laufásveg

Við Laufásveg

Kristín Jónsdóttir


  • Ár : 1938-39
  • Hæð : 96 cm
  • Breidd : 122 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Talsvert er til af Reykjavíkurmyndum frá fjórða áratug liðinnar aldar eftir íslenska málara, enda er það tímabil þorps- eða þéttbýlismálverks í íslenskri myndlist. Kristín Jónsdóttir fjallar ekki oft um Reykjavík í myndum sínum, en þær myndir sem hún gerir bera þó ekki yfirbragð skrásetningar eða frásagnar eins og gerist í myndum sumra listmálara frá þessu tímabili, heldur verður borgarlandslagið henni tilefni til hugleiðinga um birtu, form og óljós skil náttúrunnar og hins manngerða. Myndin sem hér um ræðir er máluð í vinnustofu Kristínar á Laufásvegi 69 þar sem við blasti þetta útsýni til suðurs, Öskjuhlíðin yst til vinstri, Helgafell og svo Bláfjöll lengst í fjarska. Aðalsteinn Ingólfsson segir svo í bók sinni, Kristín Jónsdóttir: Listakona í gróandanum: „Myndir hennar [sýna] útþenslu bæjarins, hvernig byggð og óbyggð mætast, og hvernig óbyggðin fer halloka. En í þessum myndum er skrásetning á vexti og viðgangi bæjarins auðvitað ekki mergurinn málsins, heldur eigindir birtunnar sem mýkir eða skerpir allar áherslur í mótífinu“ (bls. 152). Óhætt er að halda því fram að fáar myndir íslensks listmálara lýsi betur „því angurværa andrúmslofti sem fylgir sólarlagi á ísköldum vetrardegi, heldur en einmitt Við Laufásveg eftir Kristínu“.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann