Flokkar

 

Áratugur

Án titils

Án titils

Georg Guðni


  • Ár : 2003
  • Hæð : 280 cm
  • Breidd : 205 cm
  • Grein : Málverk
  • Undirgrein : Olíumálverk

Árið 1998 hélt Georg Guðni stóra einkasýningu á Kjarvalsstöðum. Um hana segir Gunnar J. Árnason: „Georg Guðni hefur leitað inn til landsins, upp á heiðar og inn á miðju landsins, á öræfin, á sandana sem eru ekki mótaðir af vatnsföllum heldur tilheyra hinu ósnortna og eyðilega svæði handan jökla. Heiðalandslag er landslag sem er mitt á milli. Það er mitt á milli fjalla og dala, og ekki á neinum tilteknum stað. Með fjöllum og dölum er verið að afmarka ákveðna miðju sem fangar athyglina og uppbygging myndarinnar tekur mið af. Heiðarnar, aftur á móti, svipað og sandarnir, hafa ekki miðju, þar er ekki endilega neitt tiltekið kennileiti sem fangar athyglina. Það er enginn sérstakur staður sem við förum á til að sjá heiðina. Heiðin er hér og þar, á leiðinni milli staða, án sérstakra kennileita, en samnefnari fyrir alla leiðina“ (Gunnar J. Árnason: Georg Guðni: Yfirlitssýning/Retrospective 2003). Í síðustu verkum sínum, sbr. myndina Án titils, er Georg Guðni „að fást við hugarástand sem skapast þegar augað festir ekki á neinu og landslagið líður hjá eins og út um bílrúðu. Eins konar hugleiðsluástand. En þetta er ekki hugarástand sem á skylt við hina rómantísku upphafningu, sublímasjón nítjándu aldar landslagsmálverksins, því myndir Georgs Guðna fela ekki í sér neina ávísun á æðri veruleika handan við skynreynsluna, þær eru algjörlega trúar skynreynslu eins og við geymum hana innra með okkur. ... Myndirnar lýsa þeirri upplifun sem fylgir okkur eftir að bein skynreynsla líður hjá, þau almennu áhrif sem við verðum fyrir og eru ekki bundin tilteknum kennileitum sem hægt er að afmarka með formi. Það má leggja þann skilning í þessi málverk Georgs Guðna af sandöldunum í miðju landsins að þær séu áskorun til okkar að reyna að venja okkur af að ramma landið sífellt inn utan um afmörkuð fyrirbæri til þess að geta notið þess ...“ (Gunnar J. Árnason: Sama rit, bls. 14).

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann