Flokkar

 

Áratugur

Kona með Amor

Kona með Amor

Ásmundur Sveinsson


  • Ár : 1927
  • Hæð : 140 cm
  • Breidd : cm
  • Grein : Skúlptúr
  • Undirgrein : Gifsmynd

Verkið er staðsett í höggmyndagarði við Ásmundarsafn. Þessa mynd gerði Ásmundur í gifs þegar hann var búsettur í París og hafði vinnustofu í Constansgötu 11 í Montmartre-hverfi. Myndin var steypt í brons árið 1955 og sett upp við Reykjalund. Þetta er einföld og ljóðræn mynd og vitnar um þekkingu listamannsins á anatómíu og hefðbundnum hlutföllum sem þó eru rofin milli konunnar og barnsins. Barnið virkar of lítið í höndum hennar og gefur verkinu þannig yfirnáttúrlegt inntak. Þó að líkami konunnar sé þykkur og massífur, þá er hann einnig gæddur mjúkri hreyfingu, eins konar hornalínu sem gengur frá hægri fæti upp í gegnum líkamann allan og beinir athygli áhorfandans að barninu í höndum konunnar. Í myndinni má sjá að hár konunnar er stílfært á eindreginn hátt og gefur það verkinu forn-klassískt yfirbragð. Enda ekki að undra því eins og nafnið bendir til er hér um að ræða vísun í gríska goðafræði. Amor, með boga sinn og örvar, er rómversk samsvörun ástarguðsins Erosar sem sagður var sonur Afródítu og Aresar. Goðafræði Forn-Grikkja segir okkur að Eros skjóti mannfólkið með örvum sínum og tendri ástina. Í þessu verki eru tengslin á milli konunnar og barnsins nokkuð tvíræð. Viðmót þeirra minnir fremur en annað á samband barns og móður. Hér höfum við því að öllum líkindum Afródítu og Eros.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann