Flokkar

 

Áratugur

Móðurást

Móðurást

Nína Sæmundsson


  • Ár : 1924
  • Hæð : 157 cm
  • Breidd : 50 cm
  • Grein : Skúlptúr
  • Undirgrein : Málmskúlptúr

Verkið er staðsett í Mæðragarðinum við Lækjargötu. Árið 1924 sendi Nína verkið Móðurást á sýningu í París og þurfti þá að greiða með verkinu, sem voru síðustu aurarnir hennar. Verkið var valið á sýninguna, sem varð til þess að hún gat betur komið sér á framfæri sem listamaður. Skúlptúrinn þótti ekki neitt sérlega nýstárlegur á þeim tíma en verkið er mjög fallega mótað, látlaust og innilegt. Stöpullinn undir verkið er hlutfallslega hár miðað við konuna sjálfa, sem ýtir undir fínleika formsins. Afsteypa af verkinu var keypt til Íslands árið 1926 og henni komið fyrir í Mæðragarðinum við Lækjargötu sem gerður var sérstaklega fyrir börn og mæður þeirra. Í þá aga var garðurinn stærri og í kringum hann mikil steinsteypt girðing. Verkið var það fyrsta sem reist var á almannafæri sem ekki var minnismerki eða eftirmynd tiltekins manns. Um Nínu Sæmundsson: Nína Sæmundsson (1892-1965), fædd Jónína Sæmundsdóttir í Nikulásarhúsum í Fljótshlíð, var yngst 15 systkina. Hún nam við hina Konunglegu dönsku listaakademíu í Charlottenborgarhöll á öðrum og þriðja áratug 20. aldar. Hún vakti strax athygli í Danmörku á námsárunum, starfaði um tíma í París en flutti síðan til Bandaríkjanna þar sem hún bjó í þrjá áratugi. Í Bandaríkjunum vann hún mörg opinber verkefni og öðlaðist vinsældir sem næmur og fágaður portrettlistamaður. Verk Nínu mótuðust í upphafi af nýklassísku stefnunni sem var ráðandi í höggmyndagerð og arkitektúr á Norðurlöndum á upphafsáratugum 20. aldar. Dvöl hennar á Ítalíu og í Frakklandi styrkti enn tök hennar á klassískri formmótun, en eftir að hún kom til Bandaríkjanna þróuðust verk hennar í átt að art deco-stíl. Árið 2004 voru Listasafni Reykjavíkur færðar að gjöf ellefu höggmyndir eftir Nínu.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann