Flokkar

 

Áratugur

Séra Friðrik og drengurinn

Séra Friðrik og drengurinn

Sigurjón Ólafsson


  • Ár : 1952
  • Hæð : cm
  • Breidd : 140 cm
  • Grein : Skúlptúr
  • Undirgrein : Málmskúlptúr

Á horni Amtmannsstígs og Lækjargötu Eins og margir aðrir hafði Sigurjón Ólafsson numið kristinfræði í æsku hjá sr. Friðriki Friðrikssyni (1868–1961) og var hlýtt til hans. Á stríðsárunum voru þeir báðir innlyksa í Danmörku þar sem Sigurjón gerði höfuðmynd af sr. Friðriki árið 1943 „áður en það yrði um seinan“ eins og hann komst að orði. Höfuðmyndin var til sýnis meðal annarra mannamynda Sigurjóns í Listvinasalnum 1952. Vaknaði þá áhugi meðal gamalla nemenda sr. Friðriks á að láta reisa hinum aldna æskulýðsleiðtoga verðugt minnismerki og var Sigurjón sjálfkjörinn til verksins. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, tók að sér fjársöfnun vegna minnismerkisins og samdi við yfirvöld, ríki og borg, um staðsetningu þess. Sr. Friðrik hóf að sitja fyrir hjá Sigurjóni vorið 1952 og varð þá til 60 sm há formynd úr leir sem listamaðurinn stækkaði til muna í Kaupmannahöfn þá um sumarið. Fyrirmynd drengsins sem stendur við hlið sr. Friðriks var annars vegar tréstytta af dreng eftir Tove, konu Sigurjóns, hins vegar ungur sonur samstarfsmanns hans. Minnismerkið stækkaði Sigurjón og fullvann í Kaupmannahöfn þar sem það var steypt hjá Lauritz Rasmussen. Stelling sr. Friðriks og uppbygging verksins ræðst ekki eingöngu af aldri hans og dvínandi þrótti, heldur birtist í þeim næmur skilningur á persónu og lífsstarfi kennimannsins. „Með því að stilla þeim hlið við hlið, prestinum og drengnum, og tengja þá saman með einfaldri skipan handanna, tekst Sigurjóni að gefa til kynna „hvílandi, góðlátan virðuleika“ sr. Friðriks, svo vitnað sé til orða Björns Th. Björnssonar, og innilegt samband hans við „drenginn, sem eru allir drengir“ (Aðalsteinn Ingólfsson: Sigurjón Ólafsson: Ævi og list, bls. 93). Að auki er sjálft höfuð sr. Friðriks frábær mannlýsing, þar sem allir fletir andlitsins bregðast við minnstu breytingu birtunnar.

Mitt safn 

Fleiri verk eftir sama listamann